Veður

Hægar og svalar norð­lægar áttir fram yfir helgi

Atli Ísleifsson skrifar
Dagshiti fer nærri tíu stigum suðvestan til þegar best lætur, en áfram líkur á næturfrosti í öllum landshlutum.
Dagshiti fer nærri tíu stigum suðvestan til þegar best lætur, en áfram líkur á næturfrosti í öllum landshlutum. Vísir/Vilhelm

Veðurspáin er eindregin fram yfir helgi að minnsta kosti. Er spáð fremur hægum en svölum norðlægum áttum, þar sem skýjað verður norðan- og austanlands og stöku skúrir eða él. Annars verður yfirleitt léttskýjað.

Í hugleiðingum veðurfræðings segir að dagshiti fari nærri tíu stigum suðvestan til þegar best láti, en áfram líkur á næturfrosti í öllum landshlutum. 

Annars verður hiti á landinu í dag á bilinu núll til níu stigum.

Spákortið fyrir hádegið.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag og föstudag: Norðaustan og austan 3-10 m/s. Lengst af bjartviðri SV-lands og hiti að 9 stigum. Annars skýjað að mestu og sums staðar dálítil él, einkum NA-til og hiti 0 til 5 stig þar. Næturfrost í öllum landshlutum.

Á laugardag, sunnudag og mánudag: Fremur hæg norðlæg eða breytileg átt og bjart að mestu, en skýjað og stöku él N- og A-lands. Hiti víða 0 til 7 stig að deginum, hlýjast SV-lands, en áfram næturfrost.

Á þriðjudag: Útlit fyrir hægan vind, víða léttskýjað og áfram fremur svalt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×