Gísli má vera á hótelinu og hann má vera í Eurovision-höllinni. Annars staðar ekki, ekki á kaffihúsi, ekki á veitingastað og ekki í partíum. Hann má ekki einu sinni taka með sér kaffi út um lúgu.

„Þetta er mjög stíft en við megum fara út að skokka og í göngutúr. Við reynum að gera það og erum ekkert að kvarta, við erum með hollenskar hjálparhellur sem fara út í búð fyrir okkur. Þau fóru í stóra verslunarferð í gær,“ segir Gísli kátur í spjalli við Vísi.
Daði og Gagnamagnið eru á sinni fyrstu æfingu í höllinni í dag, sem er nokkuð mikilvægt augnablik í ferlinu fram undan. Veðbankar fylgjast með frammistöðunni. Sveitin keppir í síðari umferð undankeppninnar fimmtudaginn 20. maí.
Gísli segir ljóst að Eurovision í ár sé langt frá því að vera sama hátíð fyrir aðstandendur keppninnar og allt starfslið, en að það eigi ekki að koma niður á gæðum sjálfrar útsendingarinnar. Hún verði jafnflott og endranær.
Það er hlýtt og sumarlegt í Rotterdam en hópurinn getur í mesta lagi notið þess á svölunum á hótelinu. Partí á vegum Norðurlandanna og borgarstjóra, sem eru í venjulegu árferði mikilvægt atriði fyrir þátttakendur, eru auðvitað á bak og burt í bili.
Á sama hátt væri Daði í fjölda fjölmiðlaviðtala á dag en annar háttur er hafður á slíku þetta árið. Blaðamannafundur er haldinn á eftir með tugum blaðamanna og enn fleiri sem skrá sig inn rafrænt.