Sabin skoraði 28 stig, þar á meðal sigurkörfu KR þegar níu sekúndur voru eftir. Hann mætti í settið til strákanna í Domino's Körfuboltakvöldi og horfði á sigurkörfuna með þeim.
„Samherjarnir treysta mér,“ sagði Sabin sem hafði góða tilfinningu eftir að hann sleppti boltanum. „Mér leið vel en þú veist hvernig körfuboltinn er.“
Hann kvaðst ánægður með að vera búinn að vera forystunni í einvíginu.
„Við vissum að þetta yrði erfitt. Við tökum einn leik fyrir í einu, njótum í kvöld en mætum síðan aftur í vinnuna á morgun,“ sagði Sabin.
Hann segir að munurinn á úrslitakeppninni og deildarkeppninni sé töluverður.
„Ákefðin er meiri og smáatriðin skipta meira máli. Leikurinn er ekki jafn hraður og snýst meira um andlegu hliðina. Við tökum bara einn leik fyrir í einu,“ sagði Sabin sem naut þess að spila fyrir framan áhorfendur sem settu svip sinn á leikinn.
„Það er meiri orka í húsinu og meiri stemmning. Að heyra í stuðningsmönnunum og finna fyrir þeim gerir þetta skemmtilegra.“
Næsti leikur KR og Vals er á miðvikudaginn. Liðin hafa mæst þrívegis í vetur og allir leikirnir hafa endað með útisigri.
„Allt tímabilið vorum við að tala um að ná heimavallarrétti en svo þurfum við hann ekki. Við erum betri á útivelli,“ sagði Sabin léttur en KR vann aðeins þrjá af ellefu heimaleikjum sínum í Domino's deildinni en níu af ellefu útileikjum.
„Við finnum fyrir stuðningsmönnunum og okkur líður betur á heimavelli. Þú vilt frekar spila á heimavelli en útivelli þannig að við hlökkum til þess.“