Innlent

Þjófar réðust á starfsmann lyfjaverslunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Vísir/Vilhelm

Tveir menn réðust á starfsmann lyfjaverslunar í Kópavogi um kvöldmatarleytið í gærkvöldi en hann veitti þeim eftirför eftir að þeir létu greipar sópa í versluninni.

Í tilkynningu frá lögreglu segir að starfsmaðurinn hafi náð aftur vörunum sem mennirnir stálu en þeir þá ráðist á hann, slegið hann ítrekað í andlitið og rifið í fatnað hans.

Málið er í rannsókn.

Skömmu síðar hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afskipti af sofandi manni í bifreið fyrir utan verslun í Garðabæ. Vegfarendur höfðu gert tilraun til að vekja manninn en ekki haft erindi sem erfiði og var í fyrstu talið að  hann væri veikur.

Hann reyndist hins vegar í „annarlegu ástandi“ og með ætluð fíkniefni á sér þegar lögreglu bar að garði. Lagði lögregla bæði hald á fíkniefnin og lykla bifreiðarinnar.

Nokkrir voru stöðvaðir í gærkvöldi grunaðir um akstur undir áhrifum og þá var ökumaður stöðvaður á 109 km/klst þar sem hámarkshraði er 50 km/klst. Var viðkomandi færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×