Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þjóðskrá. Heildarfasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækkar um 8 prósent en um 5,9 prósent á landsbyggðinni. Mesta hækkunin er á Vestfjörðum, eða um 16,3 prósent.

Hækkunin er 8,6 prósent á Norðurlandi vestra, 6,7 prósent á Suðurlandi, 6,6 prósent á Austurlandi, 5,1 prósent á Suðurnesjum, 4,8 prósent á Vesturlandi og 4,2 prósent á Norðurlandi eystra.

Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár, segir að hækkunin sé í takt við þróun fasteignaverðs á tímabilinu febrúar 2020 til febrúar 2021.
„Fyrir ári síðan ríkti nokkur spenna um hvaða áhrif Covid-19 myndi hafa á matið en við sjáum að aðrir þættir eins og lægri vextir hafa haft talsverð áhrif á fasteignamarkaðinn og þar með fasteignamatið,“ segir Margrét í tilkynningu.
Heildarfasteignamatið hækkar mest í Bolungarvík, eða um 22,8 prósent, um 18,9 prósent í Ísafjarðarbæ og um 15,3 prósent í Vesturbyggð. Mesta lækkunin er í Skorradalshreppi þar sem fasteignamatið lækkar um 2,6 prósent.

Samanlagt mat íbúða á öllu landinu hækkar um 7,9 prósent á milli ára og verður alls 7.221 milljarðar króna, þar af hækkar sérbýli um 8,2 prósent á meðan fjölbýli hækkar um 7,7 prósent. Almennt er hækkun á íbúðarmati á höfuðborgarsvæðinu 8,9 prósent en 5,2 prósent á landsbyggðinni.