Guðjón Ingason varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir að flytja hafi þurft fólk tengt smitinu í sóttvarnahús á Rauðarárstíg. Mbl greindi fyrst frá.
„Minnihlutinn var staðfest smit en meirihlutinn var þegar í sóttkví og þetta var í raun og veru bara til að halda fjarlægðinni milli herbergja,“ segir Guðjón. Hann kveðst ekki muna hvenær sjúkraflutningar voru svo margir á einum sólarhring en það hafi líklega verið í haust í fyrri bylgju veirunnar. Fyrir utan tíða sjúkraflutninga hafi síðasti sólarhringur verið með hefðbundnum hætti.
Sjö greindust með kórónuveiruna innanlands í fyrradag og voru allir utan sóttkvíar. Um er að ræða hópsmit hjá hælisleitendum á höfuðborgarsvæðinu. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði í gær að einhver smitanna kynnu að vera gömul en öruggt væri að fjögur eða fimm væru nú. Smit í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði gæti tengst málinu.