Forseti El Salvador tilkynnti að landið myndi taka Bitcoin upp sem gjaldmiðil á Bitcoin ráðstefnu síðastliðinn laugardag. Hann sagði löggildingu rafmyntarinnar vera leið til að auka erlendar fjárfestingar í smáríkinu í mið-ameríku.
Forsetinn sagði enn fremur að ef einungis einu prósenti Bitcoin í heiminum yrði fjárfest í El Salvador, myndi verg landsframleiðsla landsins aukast um 25 prósentustig.
Bitcoin geri öllum kleift að stunda viðskipti
Fjárhagur El Salvador er ekki með góðu móti og landið reiðir sig að miklu leiti á peningasendingar frá Salvadorum sem búa erlendis. Vonir standa til að upptaka Bitcoin muni auðvelda millifærslur til landsins og draga úr kostnaði þeirra.
Smáforritið Strike verður notað til að halda utan um notkun Salvadora á Bitcoin. Því munu íbúar landsins einungis þurfa aðgang að snjallsíma til að nýta rafmyntina. Forseti landsins segir meginþorra íbúa ekki eiga hefðbundinn bankareikning og muni rafmyntin því auðvelda öll viðskipti í landinu.
Gengi Bitcoin sveiflukennt
Athygli vekur að El Salvador veiti Bitcoin löggildingu enda hefur hefur gengi rafmyntarinnar verið sveiflukennt allt frá því að henni var komið á laggirnar árið 2008.
Undanfarið hefur Bitcoin verið í frjálsu falli og er tímasetning El Salvador því í meira lagi áhugaverð.