Innlent

Breytingar á fíkniefnalögum samþykktar

Árni Sæberg skrifar
Iðnaðarhampur er kominn inn á borð landbúnaðarráðherra.
Iðnaðarhampur er kominn inn á borð landbúnaðarráðherra. VW Pics/Getty

Málefni iðnaðarhamps færast frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar eftir lagabreytingu sem samþykkt var í gær.

Eitt þeirra mála sem afgreitt var á lokadegi þingsins í gær var frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni.

Stjórnsýsla og verkefni sem varða innflutning á fræjum af tegundinni cannabis sativa til ræktunar á iðnaðarhampi flyst frá Lyfjastofnun til Matvælastofnunar. Alþingi leit til þess að iðnaðarhampur er ekki ávana- og fíkniefni heldur nytjaplanta og því eðlilegra að fræ til ræktunar á honum falli undir lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru sem Matvælastofnun hefur eftirlit með.

Í fyrra breytti heilbrigðisráðherra reglugerð um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni og veitti Lyfjastofnun leyfi til að veita undanþágur frá reglugerðinni svo unnt væri að flytja inn fræ til ræktunar iðnaðarhamps.

Undanþágan var bundin því skilyrði að ekki yrðu fluttar inn eða ræktaðar plöntur sem innihalda vímuefnið THC í nýtanlegu magni, eða að hámarki 0,2 prósent.

Ráðherra lagði áherslu á að reglugerðarbreytingin væri tímabundin ráðstöfun. Ávana- og fíkniefnalöggjöfin hefði skýr markmið og tilgang sem félli augljóslega að málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins. Það gerði ræktun iðnaðarhamps hins vegar ekki. Því væri nauðsynlegt að skýra lagagrundvöll og ábyrgð þeirra stofnana sem þurfa að koma að framkvæmdinni þegar kemur að leyfisveitingum og eftirliti með ræktun iðnaðarhamps.

Gert er ráð fyrir að landbúnaðarráðherra setji reglugerð sem kveði á um veitingu leyfis til innflutnings á fræjum af tegundinni cannabis sativa og skuli þar m.a. koma fram nánari skilyrði og takmarkanir á innflutningi, meðferð og vörslu þeirra fræja sem lögin ná til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×