Ákvörðun Heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu að semja við erlenda rannsóknarstofu um rannsóknir á sýnunum hefur vakið hörð viðbrögð og mikla gagnrýni, bæði meðal kvenna og heilbrigðisstétta.
Heilsugæslan tók við skimununum um áramótin en biðtími eftir niðurstöðum er enn tveir til þrír mánuðir. Landspítalinn hefur sagst geta sinnt rannsóknunum og segist geta gefið niðurstöður við HPV-greiningum, sem eru nú fyrsta rannsókn, á tveimur til þremur dögum.
Landlæknir hefur lagt blessun sína yfir gæðaáætlun Landspítala, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hins vegar hefur komið fram að samkvæmt áætlunum muni rannsóknirnar kosta meira á spítalanum en í Danmörku.
Vísir sendi aðstoðarmanni ráðherra og upplýsingafulltrúa sjö spurningar á mánudag, í kjölfar þess að Haraldur Briem, fyrrverandi sóttvarnalæknir og ritari skimunarráðs, skilaði ráðherra og þinginu skýrslu um flutning verkefnisins og framkvæmdina hingað til.
Þær voru eftirfarandi:
- Er ráðherra/ráðuneytið að skoða það að flytja rannsóknir á leghálssýnum aftur heim, það er að segja á Landspítala?
- Er í skoðun að flytja HPV rannsóknirnar á Landspítala?
- Á eitthvað samstal sér stað við Landspítala vegna þessa?
- Hefur eitthvað samtal átt sér stað við þá læknahópa sem hafa gagnrýnt flutning rannsóknanna úr landi?
- Hver eru næstu skref í málinu? Er ákvörðunar að vænta um framtíðarstaðsetningu rannsóknanna?
- Hvernig hyggst ráðherra stuðla að trausti meðal kvenna þegar kemur að skimuninni?
- Kemur til greina að hafa fyrirkomulagið óbreytt, það er að segja að hafa rannsóknirnar áfram erlendis?
Í dag barst svar:
„Að svo stöddu er ekki hægt að greina frá því hvort breytinga er að vænta varðandi greiningar leghálssýna. Málið er í vinnslu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisráðuneytinu.“