Leitin hefur staðið að manninum síðan í gær, eftir að hann varð viðskila við eiginkonu sína við gosstöðvarnar í Geldingadölum. Björgunarsveitir um nær allt land hafa verið kallaðar út, notast er við dróna og þyrla Landhelgisgæslunnar hefur sveimað yfir svæðið.
„Við erum að fá hópa alveg vestan af Snæfellsnesi sem eru væntanlegir og austan af landi, höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Þetta eru eitthvað á þriðja hundrað manns sem hafa verið í aðgerðinni,“ segir Steinar Þór Kristinsson, sem er í svæðisstjórn björgunarsveita á Suðurnesjum.
Lögreglan á Suðurnesjum lýsti formlega eftir manninum nú síðdegis en hann heitir Scott Estill og er fimmtíu og níu ára Bandaríkjamaður. Honum er lýst sem grannvöxnum og var dökklæddur með litríka myndavélaól.
Síðast sást til Scott við hraunkantinn austast í Merardölum, þar sem hann varð viðskila við eiginkonu sína. Lögregla hefur gefið út kort af svæðinu og beðið fólk um að merkja við þann stað þar sem sást til hans og hafa samband við lögreglu.

Þá er fólk sem var á svæðinu í gær beðið um að skoða myndir og myndbönd sem það tók.
„Hvort hann gæti hafa slæðst inn á þessar myndir. Það getur gefið okkur vísbendingu ef við höfum tímasetningu og staðsetningu.“
Leit verður haldið áfram inn í kvöldið og staðan endurmetin eftir það.
„Líklega tökum við pásu í nótt og svo á að reyna að fara af stað í fyrramálið og taka svolítið massíva leit á morgun,“ segir Steinar.