Nýgift hjónin birtu mynd af sér saman í Instagram-sögum sínum í gær.
Greint var frá trúlofun Gunnars og Sunnu í maí síðastliðnum. Þau hafa greinilega ekki séð ástæðu til að bíða lengi með giftinguna og létu til skarar skríða við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík um helgina með tilheyrandi veisluhöldum.

Tveimur dögum eftir að þau tilkynntu um trúlofun sína gaf Gunnar Bragi það út að hann myndi ekki gefa kost á sér fyrir komandi Alþingiskosningar. Hann er þingmaður Miðflokksins.
Gunnar og Sunna kynntust í gegnum starf Framsóknarflokksins og var Sunna aðstoðarmaður Gunnars þegar hann var utanríkisráðherra í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.
Sunna var á sínum tíma skrifstofustjóri þingflokks Framsóknarflokksins en starfaði einnig hjá Mjólkursamsölunni þar til fyrir skemmstu, þegar hún hóf störf hjá sendiráði Breta hér á landi. Hún er menntuð í almannatengslum og menningarmiðlun.
