Veður

Hlýtt loft ættað suður úr höfum yfir landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Mun svalara veður sunnan- og vestanlands þar sem hiti verður á bilinu níu til fjórtán gráður.
Mun svalara veður sunnan- og vestanlands þar sem hiti verður á bilinu níu til fjórtán gráður. Vísir/Vilhelm

Fremur hægar suðlægar áttir verða ríkjandi í dag og víða verður þungbúið, en bjartara austast á landinu. Birtir heldur til norðaustan- og austanlands þegar líður á daginn, en áfram skýjað og úrkomulítið um landið vestanvert.

Á vef Veðurstofunnar segir að hlýtt loft ættað suður úr höfum sé nú yfir landinu og megi búast við að hiti fari yfir tuttugu gráður sums staðar norðaustan- og austanlands í dag og þá einkum í innsveitum. Við sjávarsíðuna geta þokubakkar hins vegar verið á sveimi.

„Mun svalara veður sunnan- og vestanlands þar sem hiti verður á bilinu 9 til 14 gráður. Bætir heldur í vind um landið norðvestanvert og syðst á landinu á morgun, en annars má búast við mjög svipuðu veðri og í dag.

Áfram hlý suðvestlæg átt á landinu á fimmtudag, en úrkomumeira vestantil á landinu, einkum á Vestfjörðum og við Breiðafjörð.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag: Hægt vaxandi suðvestlæg átt og skýjað um landið V-vert, annars bjart með köflum. Suðvestan 5-13 m/s um kvöldið og dálítil væta vestast. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast NA-lands.

Á fimmtudag: Suðvestan 5-13, skýjað og dálítil rigning vestantil, en annars bjart að mestu. Hiti 10 til 22 stig, hlýjast í innsveitum suðaustan- og austanlands.

Á föstudag: Suðlæg átt og skýjað að mestu, en léttskýjað norðan- og austantil. Hiti 11 til 23 stig, hlýjast á Norðausturlandi.

Á laugardag og sunnudag: Suðaustlæg átt og rigning með köflum um landið sunnan- og vestanvert, annars þurrt og bjart að mestu. Hiti breytist lítið.

Á mánudag: Útlit fyrir vaxandi suðaustan- og austanátt með rigningu í flestum landshlutum. Kólnar heldur í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×