Diljá Ýr hefur skorað í báðum byrjunarliðsleikjum sínum með Häcken og er alls komin með fjögur mörk þrátt fyrir að hafa bara spilað sjö leiki á sínu fyrsta tímabili í sænsku úrvalsdeildinni.
Diljá skoraði eitt af þremur mörkum Häcken liðsins í 3-0 útisigri á Linköping. Eftir sigurinn er Häcken í öðru sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Rosengård.
Dilja hafði áður skorað í 6-2 sigri á Kristianstad í leiknum á undan en það var hennar fyrsti leikur í byrjunarliðinu.
Dilja fékk tækifæri í byrjunarliðinu eftir að hafa skorað tvisvar sinnum eftir að hafa komið inn á sem varamaður. Hún skoraði í 3-0 sigri á Örebro sex mínútum eftir að hafa komið inn á völlinn og skoraði einnig í 10-0 sigri á AIK tíu mínútum eftir að hún kom inn á völlinn.
Diljá hefur alls spilað 248 mínútur í þessum sjö leikjum og hefur því skorað á 62 mínútna fresti á sínu fyrsta tímabili í Svíþjóð.
Diljá Ýr skoraði aðeins eitt mark í ellefu leikjum með Valsliðinu í Pepsi Max deild kvenna í fyrra og er nú komin með fleiri mörk í sænsku úrvalsdeildinni í fyrstu sjö leikjunum en hún skoraði í fimmtíu leikjum í Pepsi Max deildinni með FH, Stjörnunni og Val.
Diljá Ýr verður ekki tvítug fyrr en í nóvember og það verður fróðlegt að fylgjast með henni það sem eftir lifir tímabilsins.