Alls fljúga 46 vélar frá landinu í dag og hafa fleiri vélar ekki farið frá landinu á einum sólarhring frá því fyrir heimsfaraldurinn.
„Þetta reynir á afkastagetuna í öllu, eins og hjá okkur í lögreglunni varðandi vottorðaskoðun, landamæri og fleira,“ segir Arngrímur. Hann segir vottorðaskoðunina hafa verið fullmannaða og hún keyrð á fullum afköstum en þegar svo mikill fjöldi flugvéla komi á sama tíma, þá séu alltaf líkur á því að biðraðir myndist.
Miklar biðraðir mynduðust bæði í morgun, eins og sagt var frá á Vísi, og sömuleiðis seinni partinn, eins og sjá má á meðfylgjandi myndbandi sem tekið var í komusal Keflavíkurflugvallar um klukkan fimm í dag.
Arngrímur segir að líklega verði biðraðir á álagstíma á meðan verið er að sinna covid-tengdum verkefnum. Ekki sé hægt að komast hjá því.
Það sem hægi mikið á sé að farþegar þurfi meira og minna allir að framvísa vottorðum og öðru til að mega fljúga.
„Þannig að það er ekkert hægt að nota neitt sem kallast sjálfvirkt á flugvellinum. Þannig að hvort sem um ræðir komu- eða brottfarafarþega, þá þarf að eiga samskipti við þá alla.“
Hér má sjá frétt Stöðvar 2 um örtröðina í Leifsstöð í morgun.