Heilt yfir vilja 46 prósent kjósenda að ríkisstjórnarsamstarf Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar haldi áfram eftir kosningar í haust en um 54 prósent eru því mótfallin, samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar í júní. Þá eru konur aðeins hlynntari samstarfinu en karlar; 48 prósent kvenna vilja ríkisstjórnina áfram en 45 prósent karla.
Þá eru rúm sjötíu prósent kjósenda Vinstri grænna mótfallin áframhaldandi samstarfi og eru þannig á öndverðum meiði við stuðningsmenn hinna flokkanna. Samkvæmt könnuninni styðja 88 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks áframhaldandi samstarf eftir kosningar og 82 prósent kjósenda Framsóknar. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar segir stuðning Framsóknarmanna við ríkisstjórnina ekki koma á óvart.
„Hins vegar er það ekkert sérstakt kappsmál að viðhalda þessu stjórnarsamstarfi, við erum að fara í kosningar óbundin í haust en það er auðvitað ákveðin viðurkenning á að þetta samstarf hafi gengið vel,“ segir Sigurður Ingi.
Hann vill ekki leggja mat á stöðuna innan VG.
„Það er auðvitað erfitt fyrir mig að meta hvernig staðan er í baklandi einstakra flokka en það kemur mér ekki á óvart þessi stuðningur sem er í baklandi Framsóknarflokksins.“
Þannig að þú tekur ekki þennan lakari stuðning stuðningsmanna VG til þín?
„Nei, alls ekki. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst stjórnarsáttmálinn upphaflega mjög vel samsettur af sjónarmiðum allra þessara þriggja flokka og ég held að við höfum spilað nokkuð vel úr því.“