Fótbolti

United hefur keypt fjóra dýrustu leikmenn í sögu úrvalsdeildarinnar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jadon Sancho kostaði United skildinginn.
Jadon Sancho kostaði United skildinginn. Ash Donelon/Manchester United via Getty Images

Enska stórliðið Manchester United gekk í dag frá kaupum á enska kantmanninum Jadon Sancho frá þýska liðinu Borussia Dortmund. Sancho er talinn hafa kostað um 85 milljónir evra sem gerir hann að þriðja dýrasta leikmanni ensku deildarinnar frá upphafi.

Sancho skrifaði undir fimm ára samning með möguleika á ári til viðbótar í dag. Hann fer í þriðja sæti yfir dýrustu leikmenn í sögu úrvalsdeildarinnar, en kostnaðurinn er sambærilegur við kaup United á Romelu Lukaku 2017 og kaup Liverpool á Virgil van Dijk árið 2018.

Paul Pogba og Harry Maguire, leikmenn Manchester United, voru báðir dýrari við komu sína til félagsins heldur en Sancho og eru dýrustu leikmenn í sögu félaga í ensku úrvalsdeildinni. Pogba, Maguire, Sancho og Lukaku eru í efstu fjórum sætunum yfir þá dýrustu og hefur Manchester United því keypt fjóra dýrustu leikmenn í sögu deildarinnar.

Næstur á lista yfir þá dýrustu sem United hefur keypt er Argentínumaðurinn Ángel Di María sem keyptur var frá Real Madrid á 75 milljónir evra sumarið 2014. Hann er tíundi á lista yfir þá dýrustu í deildinni en lista yfir dýrustu tíu leikmennina má sjá að neðan.

Dýrustu leikmenn í sögu ensku úrvalsdeildarinnar

1. Paul Pogba til Manchester United frá Juventus á 105 milljónir evra árið 2016

2. Harry Maguire til Manchester United frá Leicester City á 87 milljónir evra árið 2019

3. Jadon Sancho til Manchester United frá Borussia Dortmund á 85 milljónir evra árið 2021

4. Romelu Lukaku til Manchester United frá Everton á 84,7 milljónir evra árið 2017

5. Virgil van Dijk til Liverpool frá Southampton á 84,6 milljónir evra árið 2018

6. Kai Havertz til Chelsea frá Bayer Leverkusen á 80 milljónir evra árið 2020

7. Nicolas Pépé til Arsenal frá Lille á 80 milljónir evra árið 2019

8. Kepa Arrizabalaga til Chelsea frá Athletic Bilbao á 80 milljónir evra árið 2018

9. Kevin De Bruyne til Manchester City frá Wolfsburg á 76 milljónir evra árið 2015

10. Ángel Di María til Manchester United frá Real Madrid á 75 milljónir evra árið 2014




Fleiri fréttir

Sjá meira


×