Spáð er áframhaldandi hægviðri í dag með dálítilli rigningu eða skúrum á sunnan- og vestanverðu landinu. Annars verður fremur hlýtt í veðri víðast hvar á landinu og bjart, þjó búast megi við talsverðum skýjum.
Gert er ráð fyrir glampandi sól á Austurlandinu í dag og einnig á Norðausturlandi. Hiti gæti farið upp í allt að 21 stig við Egilsstaði og í innsveitum Norðausturlands.

Á Vestfjörðum þar sem var gríðarlega gott veður í gær má búast við fremur hæglátu veðri þó þar verði alskýjað í allan dag. Þar verður hiti um 11 til 15 stig, örlítið minna en í gær þegar hitinn fór eitthvað yfir 20 gráðurnar í sólinni.
Um og eftir miðja næstu viku bætir þó heldur í úrkomu og vind, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands, einkum og sér í lagi á sunnanverðu landinu.
„Hiti helst þó áfram þægilegur fyrir ferðalanga og útivistarfólk, sem vilja njóta náttúru landsins síðsumars,“ skrifar veðurfræðingurinn.