Handbolti

Strákarnir endurnýja kynnin við Svía eftir tap gegn Portúgal

Sindri Sverrisson skrifar
Strákarnir í U19-landsliðinu í kastalaferð í Varazdin þar sem Evrópumótið fer fram.
Strákarnir í U19-landsliðinu í kastalaferð í Varazdin þar sem Evrópumótið fer fram. HSÍ

Íslenska U19-landsliðið í handbolta karla varð að sætta sig við tap gegn Portúgal, 33-30, á Evrópumótinu í Króatíu í dag. Ísland leikur því um 7. sæti á mótinu.

Ísland mætir Svíþjóð í leiknum um 7. sætið en Svíar töpuðu fyrir Danmörku fyrr í dag, 34-29. Ísland og Svíþjóð endurnýja því kynnin en liðin mættust einnig í milliriðli þar sem Svíar unnu eftir hörkuleik, 29-27.

Í leiknum í dag náðu Portúgalar yfirhöndinni um miðjan fyrri hálfleik og þeir voru fjórum mörkum yfir í hléi, 17-13. Mestur varð munurinn átta mörk í seinni hálfleik en íslensku strákarnir náðu að laga stöðuna á lokakaflanum.

Símon Michael Guðjónsson var markahæstur í íslenska liðinu með 9 mörk, Arnór Viðarsson skoraði 7 mörk og Guðmundur Bragi Ástþórsson 5 mörk.

Leikur Íslands og Svía fer fram á sunnudagsmorgun. Síðar sama dag verða Evrópumeistarar krýndir en í undanúrslitunum í dag mætast annars vegar Þýskaland og Spánn, og hins vegar Króatía og Slóvenía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×