Annar fundur hefur verið boðaður í deilunni hjá ríkissáttasemjara á morgun og velta mögulegar verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóranna væntanlega á útkomu hans.
„Þetta mjakaðist lítið áfram í dag,“ sagði Arnar Hjálmsson, formaður Félags íslenskra flugumferðarstjóra, í samtali við Vísi eftir fundinn, sem kláraðist í kvöld.
„Þetta hefur strandað á vinnutímamálum. Það er búið að vera okkar helsta of fyrsta krafa síðan viðræður byrjuðu í febrúar,“ segir hann.“
Ákveða framhaldið á morgun
Félagsmenn samþykktu það á mánudaginn 9. ágúst að fara í sex sjálfstæðar vinnustöðvanir í kjaradeilunni. Arnar segir að fimm þeirra hafi verið frestað og að tími til að boða þá síðustu renni út klukkan fimm á þriðjudagsmorgun. Félagið myndi því boða til þess verkfalls á morgun ef það ákvæði að fara í það. Boða þarf til verkfallsaðgerða með vikufyrirvara.
Spurður hvort sér þyki líklegt að af verkfallinu verði segir hann: „Það er allt eins líklegt. Við munum svo hitta trúnaðarráðið á morgun þar sem næstu skref verða ákveðin og í hvaða átt skal halda. Og endurnýja þá í raun umboð okkar til að boða til verkfalla, ef okkur finnst vera þörf á. Þá myndum sem sagt láta kjósa um fleiri verkföll.“
Hann vill ekki greina frá því í hverju verkfallsaðgerðirnar myndu felast.
Hann segir þó að eitthvað hafi mjakast í deilunni síðustu vikur en ekki mikið. Þó þannig að félagið ákvað ekki að boða til hinna fimm verkfallanna, sem félagsmenn höfðu veitt því umboð til að boða, áður en frestur fyrir þau rann út.