Starfsmaðurinn var við störf í síðustu viku en í kjölfar þess að hann greindist smitaður á laugardaginn hófst umfangsmikil smitrakning og sýnataka í samræmi við verklag spítalans.
Allir sjúklingar K1-deildarinnar skiluðu neikvæðu sýni um helgina, en niðurstöður sýna sem tekin voru í dag liggja ekki fyrir. Starfsmaðurinn sinnti fimm sjúklingum sem allir voru sendir í sóttkví fram á fimmtudag, að því gefnu að þeir skili neikvæðu sýni. Þá var einn sjúklingur sem var heima í helgarleyfi einnig settur í sóttkví.
Þá hafa allir starfsmenn deildarinnar skilað inn sýni um helgina og í dag, og þau hafa öll reynst neikvæð. Hluti starfsmannahópsins er í vinnusóttkví og verður skimaður tvisvar meðan á henni stendur.
Deildin er nú lokuð fyrir innlagnir og sjúklingar verða ekki fluttir á aðrar stofnanir fyrr en allri sóttkví hefur verið aflétt.
Fimmtán andlát rakin til hópsýkingar á síðasta ári
Á síðasta ári greindust 57 starfsmenn og 42 sjúklingar á Landakoti með veiruna á tímabilinu 22. nóvember til 9. október. Þrettán sjúklingar létust vegna hópsýkingarinnar á Landakoti, og tveir á hjúkrunarheimilinu Sólvöllum á Eyrarbakka, en smitið hafði dreifst þangað frá Landakoti vegna flutninga á sjúklingum.
Í skýrslu Landlæknis um hópsýkinguna á Landakoti á síðasta ári kemur fram að ófullkomin hólfaskipting hafi valdið því að afleiðingar sýkingarinnar urðu jafn alvarlegar og raunin varð.