Veður

Hitinn gæti náð um þrjá­tíu stigum á Austur­landi

Atli Ísleifsson skrifar
Hitamet gætu fallið á Norðausturlandi síðdegis í dag. Að ofan má sjá hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan 16.
Hitamet gætu fallið á Norðausturlandi síðdegis í dag. Að ofan má sjá hitaspákort Veðurstofunnar fyrir klukkan 16. Veðurstofan

Enn leika hlýjar sunnanátttir um landið með vætu og sólarleysi fyrir sunnan og vestan, en bjartviðri á Norður- og Austurlandi. Ekki er útilokað að hitamet fyrir ágústmánuð sem slegið var í gær muni falla í dag.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að áhugavert verði að sjá hversu hár hiti mælist á norðaustanverðu landinu í dag, en í gær mældust 29,4 stig á Hallormsstað, sem er hæsti hiti sem mælst hefur í ágústmánuði.

„Ekki ólíklegt að álíka hiti sjáist á einstaka veðurstöð norðaustanlands síðdegis, áður en og ef hafgolan nær sér á strik.

Ferðamenn gæti að allhvössum eða hvössum sunnanvindstrengjum á norðanverðu Snæfellsnesi, sem geta valdið ökumönnum vandræðum ef þeir aka með aftanívagna eða á bílum sem taka á sig mikinn vind.“

Á morgun má svo búast við suðlægri átt, þremur til tíu metrum á sekúndu, og lítilsháttar væta víða um land, en bjart með köflum norðaustantil. Hvessir heldur suðvestanlands um kvöldið.

Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á fimmtudag: Sunnan 5-13 m/s og skýjað með köflum sunnan- og vestanlands og sums staðar dálítil væta. Hiti 12 til 17 stig. Bjartviðri á Norður- og Austurlandi með hita að 23 stigum.

Á föstudag: Sunnan og suðaustan 8-15 m/s, en 15-20 í vindstrengjum á vestanverðu landinu fram eftir degi. Víða rigning og hiti 12 til 16 stig, en þurrt og bjart NA-lands með hita 17 til 22 stig.

Á laugardag og sunnudag: Ákveðin suðvestanátt og lítilsháttar væta á vestanverðu landinu, en yfirleitt léttskýjað eystra. Hiti 12 til 20 stig, hlýjast á Austurlandi.

Á mánudag og þriðjudag: Suðlæg átt með smásúld, en léttskýjað og hlýtt norðan- og austanlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×