Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Klara birtir á Facebook-síðu sinni en hún er komin í ótímabundið leyfi frá störfum sínum hjá knattspyrnusambandinu.
Mikið hefur gengið á innan KSÍ síðustu daga og hefur formaður og stjórn stigið til hliðar í kjölfar harðrar gagnrýni á meðferð kynferðisafbrotamála innan sambandsins.
Í yfirlýsingu sinni segir Klara augljóst að ýmislegt hafi betur mátt fara í þessum málum en allir sem hana þekki viti fyrir hvað hún standi.
Stjórn Íslensks toppfótbolta, samtök félaga í efstu deildum, og Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, sem varð fyrir ofbeldi af hálfu landsliðsmanns, hafa farið fram á að Klara hætti störfum líkt og Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ.
Sjálf hefur Klara gefið út að hún hyggist sinna starfinu áfram og fráfarandi stjórn sagt að hún muni ekki víkja henni frá störfum. Það sé í höndum nýrrar stjórnar og formanns að leggja mat á stöðu hennar.
Yfirlýsing Klöru í heild sinni
Kæru vinir.
Eins og sjá má í fréttum þá er ég komin í leyfi.
Síðustu dagar hafa verið erfiðir.
Allir sem þekkja mig vita fyrir hvað ég stend.
Ekki spurning að í öllu þessu mátti ýmislegt betur fara.
Ég styð þolendur, alltaf allsstaðar.
Um það skal enginn efast.
Takk fyrir allar kveðjurnar og stuðninginn.
Ég met það mikils.
Sjáumst fljótlega.