Innlent

„Ég er að varpa ljósi á sannleikann“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigurður G Guðjónsson lögmaður
Sigurður G Guðjónsson lögmaður Vísir/Friðrik Þór

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segist vera að varpa ljósi á sannleikann með umdeildri Facebook-færslu þar sem hann birti brot úr skýrslutöku yfir þolanda í ofbeldismáli. Starfsfólk Stígamóta sé farið að velja leikmenn í íslenska landsliðið. Ef almenningur sé hættur að treysta yfirvöldum þá sé samfélagið komið á mjög slæman stað.

Færsla Sigurðar á Facebook á sunnudagskvöld vakti mikla athygli og sýnist sitt hverjum. Formanni Lögmannafélagsins svo til svelgdist á kaffinu við lestur færslunnar og Þórhildur Gyða Arnarsdóttir, önnur konan sem kærði Kolbein Sigþórsson fyrir ofbeldi áður en fallið var frá kærum eftir greiðslu miskabóta, hefur sagst ætla að leita réttar síns.

Meira að segja dóttir Sigurðar gagnrýndi hann fyrir skrif sín og vísaði til eigin reynslu varðandi hve erfitt væri að stíga fram sem þolandi kynferðisbrota.

Edda Sif Sigurðardóttir hvatti föður sinn til að endurskoða færsluna. Það væri ekkert óvenjulegt að bíða í tvo sólarhringa með að leita til læknis.

Sigurður segist ekki hafa brotið á neinum með því að birta upplýsingar úr skýrslu lögreglu. Hann þekki skyldur sínar gagnvart skjólstæðingum sínum en þær nái ekki yfir persónuna Sigurð sem eigi heima á Þingeyri.

Viðtalið við Sigurð í Bítinu.

Sigurður hefur starfað í knattspyrnuhreyfingunni um árabil og svíður greinilega sú staða sem upp er komin. Þá hefur hann sinnt lögmannsstörfum fyrir Bakarameistarann í gegnum árin sem er í eigu föður Kolbeins auk þess að vera einn þriggja stjórnarmanna fyrirtækisins. Hin eru foreldrar Kolbeins.

Fékk gögnin afhent en ekki hjá lögreglu

Margir gagnrýna birtingu gagnanna í viðkvæmu máli á borð við þetta og var Sigurður spurður að því í Bítinu á Bylgjunni hvaðan hann hefði fengið gögnin.

„Ég þarf ekki að upplýsa hvernig ég fæ gögn í hendur,“ sagði Sigurður. Hann hefði ekki fengið þau hjá lögreglu.

„Nei, ég fékk þau bara afhent.“

Hann imprar á því að það hvíli enginn sérstakur trúnaður yfir gögnunum.

„Það gleymist að ræða að þegar mál eru til rannsóknar getur verið að það megi ekki birta upp úr gögnum vegna rannsóknarhagsmuna. Þegar rannsókn mála er lokið, og málin hafa verið felld niður og það kemur upp umræða um það löngu seinna, er ekkert óeðlilegt við það að gögnin séu skoðuð til að leiðrétta eitthvað sem er missagt. Ég var bara að leiðrétta missagnir,“ segir Sigurður og bætir við:

„Ég er að varpa ljósi á sannleikann.“

Engir sýnilegir áverkar en þó áverkar

Með birtingu gagnanna skrifar Sigurður langa færslu þar sem hann er óhætt að segja að hann fari um víðan völl. Rifjar hann meðal annars upp Twitter-færslu Þórhildar Gyðu um samskipti hennar við hitt kynið á svipuðum tíma og hún hitti Kolbein Sigþórsson knattspyrnumann á skemmtistaðnum b5 í miðbæ Reykjavíkur.

Dóttir Sigurðar er meðal þeirra sem spyrja hvað það komi málinu við hvern stúlkan hafi valið að kyssa eða vera með.

Þórhildur Gyða segir að þeim Jóhönnu hafi verið boðin 300 þúsund króna greiðsla gegn þögn um málið frá lögmönnum Kolbeins. Hörður Felix Harðarson og Almar Þór Möller, lögmenn Kolbeins, hafa þvertekið fyrir að hafa boðið nokkuð slíkt. Fram hefur komið að réttargæslumaður Jóhönnu lagði á einum tímapunkti til 300 þúsund króna miskabætur og vísaði til dómafordæma.

Þá hnýtir hann í það að Þórhildur hafi sagt í skýrslutöku hjá lögreglu ekki vera með neina sýnilega áverka. Auk þess hafi hún ekki farið á slysadeild fyrr en á sunnudagskvöld eða tæpum tveimur sólarhringum síðar.

Fram kemur í skýrslunni, og hefur áður komið fram á Vísi, að Þórhildur var með bólgur á hnakkanum. Hún hefur lýst því að Kolbeinn hafi gripið í klof hennar og síðar tekið hana hálstaki. 

Jóhanna Helga Jensdóttir fullyrðir ásamt Þórhildi Gyðu að Kolbeinn Sigþórsson hafi beitt þær ofbeldi haustið 2017. Kolbeinn neitar að hafa beitt þær ofbeldi en segir hegðun sína hafa verið óviðeigandi.Vísir/Vilhelm

Jóhanna Jensdóttir sýndi svo í fréttum Stöðvar 2 myndir af áverkum á handleggjum sem hún hlaut umrætt kvöld þegar Kolbeinn hafi gripið harkalega í hana. Aðdragandinn hafi verið að það sullaðist úr sódavatnsglasi hennar á Kolbein á göngum skemmtistaðarins.

Frásögn Jóhönnu má sjá að neðan.

Steig fram eftir Kastljósviðtal við Guðna

Sigurður tínir fleira til. Rifjar hann upp bréf föður Þórhildar til Guðna Bergssonar, þáverandi formanns KSÍ, þar sem hann bað formanninn um að halda trúnað við sig um málið þar sem það stefndi að sátt næðist í málinu.

Samkvæmt heimildum fréttastofu óskaði faðir Þórhildar eftir því við Guðna að hann héldi trúnað við fjölskylduna gagnvart Kolbeini og öllum öðrum varðandi atvikalýsingu og annað sem komið hefði fram í fyrri samskiptum þeirra vegna málsins.

Lauk málinu með því að Þórhildur og Jóhanna flugu til Parísar ásamt föður Jóhönnu og funduðu með Kolbeini og Almari Möller, lögmanni Kolbeins. Féllst Kolbeinn á að greiða hvorri konu fyrir sig 1,5 milljón króna í miskabætur og láta að tillögu þeirra þrjár milljónir króna renna til Stígamóta.

Þær hafa báðar lýst því að Kolbeinn hafi sýnt iðrun og beðist afsökunar á hegðun sinni. Þær hafi talið málið uppgert. Þegar Guðni Bergsson sagði í Kastljósviðtali á dögunum að ekkert kynferðisbrotamál hefði komið formlega inn á borð KSÍ undanfarin ár var Þórhildi ofboðið og sagði frá sínu miskabótamáli í kvöldfréttum RÚV, án þess þó að nafngreina Kolbein.

Þá hefur verið tekist á um það hvort lögmenn hafi boði konunum 300 þúsund krónur gegn þögn þeirra. Það fullyrða þær Þórhildur og Jóhanna. Slíkt boð hafi að líkindum komið frá Herði Felix Harðarsyni, öðrum lögmanna Kolbeins. Báðir lögmenn Kolbeins hafa þvertekið fyrir að hafa boðið nokkuð slíkt en vísað á tillögu réttargæslumanns Jóhönnu um 300 þúsund króna miskabætur á sínum tíma. 

Finnst atlagan að hreyfingunni ömurleg

Í framhaldinu var Guðni Bergsson sakaður um lygar en sjálfur sagðist hann hafa misminnt og talið að um ofbeldismál væri að ræða. Þegar hann var spurður í Kastljósi um kynferðisbrotamál hefði hann ekki talið þetta mál hafa fallið þar undir.

Hann baðst afsökunar á því að hafa misminnt. Hávær krafa kom í framhaldinu um afsögn hans, að stærstum hluta frá Hönnu Björg Vilhjálmsdóttur, sem hafði skrifað harðorðar greinar um KSÍ í aðdragandanum, og aktívistahópnum Öfgum, og síðar krafa um afsögn stjórnar KSÍ. Að lokum steig Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, til hliðar en hún er í ótímabundnu leyfi frá störfum.

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari gagnrýndi KSÍ í tveimur skoðanapistlum á Vísi sem leiddi meðal annars til viðtalsins afdrifaríka við Guðna Bergsson í Kastljósi. Í millitíðinni hafði KSÍ svarað fyrri pistli Hönnu og sakað hana um dylgjur.

Í framhaldinu hefur Kolbeinn sagt í yfirlýsingu að hann hafi ekki beitt konurnar ofbeldi. Hegðun hans hafi hins vegar verið óviðeigandi og hann því samþykkt að greiða miskabætur. Hann hafi fallist á allar kröfur þeirra. Konurnar harma að Kolbeinn saki þær með þessu um lygar hvað varði efasemdir um frásögn þeirra af ofbeldi af hans hálfu.

„Mér finnst atlagan að knattspyrnuhreyfingunni hreint ömurleg. Þetta er skrifað til varnar henni,“ sagði Sigurður í viðtalinu í Bítinu.

Telur margt hafa breyst til batnaðar

Sigurður segist hafa unnið að málefnum knattspyrnunar, bæði í stjórn knattspyrnudeildar og í störfum fyrir knattspyrnusambandið hvar hann hefur setið í áfrýjunardómstól í þrjátíu ár.

„Allt starf innan KSÍ hefur miðað að því að útrýma alls kyns óæskilegri hegðun. Við höfum til dæmis tekið harkalega á því þegar verið hefur kynþáttaníð. Við höfum dæmt félög vegna framferðis stuðningsmanna þar sem þeir hafa hrópað níð að leikmönnum sem hafa haft annan hörundslit en hinn hvíti.“

Stjórn KSÍ sem ákvað á dögunum að stíga til hliðar og boða til auka ársþings. Það fer fram þann 2. október.KSÍ

Allir sem hafi upplifað knattspyrnuna á Íslandi á umliðnum árum geti tekið undir þetta.

„Það er orðið mun minna um fúkyrði og djöflagang og andskotagang í garð dómara sem voru stundum alveg svakalega. Þeir sem eru 30 ára og eldri muna eftir látunum og óhróðrinum sem var spýtt yfir þetta fólk. Knattspyrnuhreyfingin hefur alltaf verið að bæta samfélagið, hvernig fólk kemur fram gagnvart starfsmönnum og leikmönnum.“

Ásökun um hópnauðgun

Sigurður fullyrðir að allt starf KSÍ miði að því að ala upp góða einstaklinga.

„Ekki að því að búa til einhverja nauðgunarmenningu eins og haldið er fram. Mig svíður alveg rosalega að þurfa að sitja undir því. Ég þekki þessa starfsemi mjög vel innandyra. Halda að þarna viðgangist einhver nauðgunarmenning og þöggun og gerendameðvirkni og allt þetta. Þetta er ekki til í knattspyrnuhreyfingunni.“

Klara Bjartmarz er framkvæmdastjóri KSÍ. Hún er farin í ótímabundið leyfi frá störfum en hávær krafa var frá aktívistahópnum Öfgum og Íslenskum toppfótbolta að hún stigi til hliðar. Hún hefur starfað í 27 ár fyrir KSÍ.Vísir/Sigurjón

Klara Bjartmarz framkvæmdastjóri KSÍ staðfesti á dögunum að mál sem sneri að meintri hópnauðgun hefði komið inn á borð sambandsins í sumar. Um er að ræða mál þar sem brotaþoli segir tvo einstaklinga hafa nauðgað sér árið 2010. Ekki kemur fram í færslunni um hverja ræðir nema að annar sé þjóðþekktur í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eru meintir gerendur reyndir landsliðsmenn. Fréttastofa hefur ekki náð tali af brotaþola í málinu og ekki staðfestar upplýsingar um að þolandi hafi sjálfur leitað með málið inn á borð sambandsins. 

Stjórnin sé orðin lömuð af atlögu gegn henni

Sigurður segir mál sem þessi koma óformlega inn á borð sambandsins og spyr, hvað eigi að gera?

„Það er ekkert í reglum KSÍ sem hveður á um það hvernig leikmenn eða starfsmenn eiga að haga sér í sínum frítíma. Ef mál eru komin til rannsóknar getur KSÍ sem frjáls félagasamtök ekki farið að hafa afskipti af því.“

Var Sigurður þá spurður að því hvort ekki væri eðlilegt að ætlast til þess við landsliðsmenn að þeir kæmu vel fram innan sem utan vallar.

Marga fastamenn vantar í íslenska landsliðið þessa dagana af ýmsum ástæðum. Yngri leikmenn standa vaktina og Andri Lucas Guðjohnsen skoraði í jafntefli gegn Norður-Makedóníu á sunnudaginn.Vísir/Hulda Margrét

„Þá kemurðu að því. Það þarf að ræða innan KSÍ, hvernig reglur setjum við um landsliðið? Nú eru engar reglur um landsliðið. Nú er það Stígamótahópur sem velur landsliðið. Reglur KSÍ gera ekki ráð fyrir því. Að það sitji fólk úr Stígamótum og fari yfir lista yfir landsliðsmenn og segi þessi má spila, þessi má ekki spila,“ segir Sigurður.

Hann fullyrðir að þannig hafi verið staðið að því þegar Kolbeini Sigþórssyni og Rúnari Má Sigurjónssyni var vikið úr landsliðshópnum fyrir þriggja landsleikjatörnina sem lýkur í kvöld með leik gegn Þjóðverjum á Laugardalsvelli.

Þær Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennari og Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, funduðu með stjórnarmönnum KSÍ í aðdraganda þess að ákveðið var að gera fyrrnefndar breytingar á landsliðshópnum. 

„Það var svo. Stjórnin er bara orðin lömuð af atlögu gegn henni.“

Á almenningur að taka völdin í sínar hendur?

Sigurður hamrar á því að við búum við reglur sem við höfum sett okkur í samfélaginu.

„Við verðum að virða þær. Ef það er brotið á mér þá get ég farið með það til lögreglu og látið rannsaka það. En ég get ekki farið til félagasamtaka og sagt: Þið takið málið og rannsakið það.“

Sigurður segir sönnunarbyrðina þunga í kynferðisbrotamálum eins og öðrum málum. Þó einhverjum finnist það þreyttur frasi þá séu menn saklausir uns sekt sé sönnuð.Vísir/Vilhelm

Aðspurður um þolendur í kynferðisbrotamálum sem telja mál sín ekki fara í nógu góðan farveg hjá lögreglu eða dómstólum og þeirra staðreyndar hve erfitt sé að sanna sök í kynferðisbrotamálum, segir Sigurður:

„Þá ertu að segja að réttarríkið bara virki ekki. Á þá bara almenningur að taka völdin í sínar hendur og dæma út og sögur? Ætlum við að fara út á þá braut þar sem hver átti sök sem vildi?“

Stígamót, sem aðstoða þolendur í kynferðisbrotamálum, fóru í gær fram á að dómsmálaráðherra skoðaði stöðu Helga Magnúsar Gunnarssonar vararíkissaksóknara sem hefði lækað hina umdeildu færslu Sigurðar

Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, talskona Stígamóta, ræddi málin í Reykjavík síðdegis í gær.

Beðinn um að halda trúnað

Sigurður segist hafa skilning á því að kynferðisbrotamál séu sérstaklega erfið meðferðar.

„Það má vel vera að innan lögreglu og dómskerfis hafi ekki verið næg þekking til að taka á svona málum og veita þá aðstoð sem þarf að veita. Það hefur þó hins vegar orðið mikil bragarbót, má alltaf bæta, en verður ekki bætt með því að búa til ofbeldi gagnvart einstökum hreyfingum eða einstökum mönnum. Það bætir ekki neitt,“ segir Sigurður.

„Það ætti kannski að beina því til dómsmálaráðherra eða þingmanna sem sitja í allsherjarnefnd Alþingis. Hvernig er hægt að styrkja rannsóknir þessara mál? Það vita allir sem hafa stundað lögmennsku, verið verjendur eða gætt hagsmuna fyrir brotaþola, að þau eru ekki auðveld fyrir brotaþola. En þau verða ekki auðveldari með því að standa á torgum og hrópa að allir séu nauðgarar.“

Guðni Bergsson, fyrrverandi formaður KSÍ, hefur ekki tjáð sig síðan hann steig til hliðar fyrir rúmri viku.Vísir/Daníel Þór

Hann segist hafa raunverulegar áhyggjur hvað varði þá þróun.

„Við sjáum hvað gerðist hjá KSÍ. Löglega kjörin stjórn samtakanna gefst upp. Formaðurinn er beygður í svaðið. Það er beðið um að hann haldi trúnað um mál, um lyktir að máli, sem er ekki til afgreiðslu innan KSÍ. Svo er hann tekinn af lífi fyrir það, að hafa virt trúnað.“

Aðspurður hvort Guðni hefði þó ekki getað sagt að mál hafi komið inn á borð en hann ekki getað tjáð sig um það vegna trúnaðarskyldu sagðist Sigurður ekki ætla að velta fyrir sér hvernig Guðni ætti að vinna vinnuna sína.

Skammar Íslenskan toppfótbolta og forseta Íslands

Sigurður nefnir Íslenskan toppfótbolta til sögunnar. Samtök félaganna í efstu deild sem hafi nýtt tækifærið til að koma formanni og stjórn frá þegar pressan var hvað mest.

„Mér finnst Guðni hafa staðið sig vel sem formaður KSÍ. Það er alltaf barátta líka um peningana inni í KSÍ. Hvejrir hlupu fastast á eftir KSÍ og formanniunm á þessari stundu? Jú, það eru formenn toppknattspyrnunnar á Íslandi. Sem hafa viljað soga pneingaan út úr KSÍ. Svo KSÍ hafi minna fé til að verja í unglingastarf og kvennastarf, sem hefur átt undir högg að sækja.“

Guðni forseti fær á baukinn hjá Sigurði G. Guðjónssyni.Vísir/Vilhelm

Hann lítur svo á að samtökin hafi verið stofnuð til höfuðs KSÍ, sem sér um að dreifa fjármunum frá alþjóðahreyfingunni.

Þá gagnrýnir Sigurður aðkomu Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands að máli Kolbeins Sigþórssonar. Forsetinn hafi lofað að taka upp málið við formann KSÍ eftir einn tölvupóst, án þess að hafa kynnt sér sakargiftir eða spurt hvort málið hafi verið kært til lögreglu eða væri til rannóknar.

„Stóð hins vegar við það loforð að tala máli föðurins við KSÍ sem ekki fer með neitt rannsóknar- eða dómsvald í ofbeldismálum utan vallar.“

Fréttin hefur verið uppfærð en þar stóð upphaflega að sökin væri fyrnd í meintu hópnauðgunarmáli frá 2010. Svo er ekki því sök í kynferðisbrotamálum sem eiga við 194. grein almennra hegningarlaga fyrnist á fimmtán árum.


Tengdar fréttir

Formanninum krossbrá þegar hann sá umdeilda Facebook-færslu Sigurðar G

Sigurði Erni Hilmarssyni, formanni Lögmannafélags Íslands, brá beinlínis þegar hann sá ljósmyndir sem Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður birti en þar má sjá brot úr lögregluskýrslu þar sem fjallað er um mál þeirra Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur og Kolbeins Sigþórssonar knattspyrnumanns.

Ber engan kala til Klöru eftir umdeilda uppsögn: „Afleiðing af margra ára karlaveldi“

Gunný Gunnlaugsdóttir, fyrrum starfsmaður KSÍ, var sagt upp störfum hjá sambandinu af Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra þess, árið 2016 þegar hún var gengin átta mánuði á leið með sitt fyrsta barn. Gunný segist ekki bera kala til Klöru vegna málsins og að hún sé að vinna öflugt starf á vinnustað sem einkennist af karllægri menningu.

Ómögulegt að ætla að hringja og biðja um leyfi

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, sat fyrir svörum á blaðamannafundi KSÍ í dag. Hann kallar eftir skýrum ramma um hverja megi velja í landsliðið í kjölfar þess að stjórn KSÍ tók Kolbein Sigþórsson úr hópi liðsins fyrir yfirstandandi landsliðsverkefni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×