Innlent

Árs­hluta­reikningur Akur­eyrar­bæjar: Af­koma 369 milljónum betri en á­ætlað var

Þorgils Jónsson skrifar
Rekstur Akureyrarbæjar gekk vonum framar á fyrri hluta ársins.
Rekstur Akureyrarbæjar gekk vonum framar á fyrri hluta ársins. Vísir/Vilhelm

Afkoma samstæðu Akureyrarbæjar á fyrri hluta ársins var nokkru betri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Í árshlutareikningi sem lagður var fyrir bæjarráð í dag og segir frá í frétt á vef bæjarins, kemur fram að rekstrarniðurstaðan var neikvæð um 706,5 milljónir króna á fyrri hluta ársins, en áætlun gerði ráð fyrir að rekstrarhalli yrði 1.075,2 milljónir króna á tímabilinu. Munurinn nemur 369 milljónum króna. Heildartekjur samstæðunnar voru 124 milljónum undir áætlun, en rekstrargjöld voru 585 milljónum undiráætlun.

Meðal einstakra liða má nefna að skatttekjur voru 6.672 milljónir króna, sem er 344 milljónum umfram áætlun, og laun og launatengd gjöld voru 8.357 milljónir króna, sem er 467 milljónum undir áætlun.

Á téðri frétt segir aukinheldur:

„Samkvæmt sjóðsstreymi samstæðunnar var veltufé frá rekstri 1.164 milljónir króna eða 8,37% af tekjum. Fjárfestingahreyfingar voru 1.802 milljónir króna og fjármögnunarhreyfingar 56 milljónir króna. Afborganir lána voru 542 milljónir króna. Ný langtímalán voru tekin fyrir 600 milljónir króna á tímabilinu. Handbært fé var 2.341 milljón króna í lok júní.

Fastafjármunir samstæðunnar voru 54.711 milljónir króna og veltufjármunir 5.335 milljónir króna. Eignir voru samtals 60.046 milljónir króna samanborið við 59.404 milljónir króna í árslok 2020. Eigið fé var 24.350 milljónir króna en var 25.063 milljónir króna um síðustu áramót. Langtímaskuldir og skuldbindingar voru 30.378 milljónir króna en voru 29.702 milljónir króna í lok síðasta árs. Skammtímaskuldir voru 5.318 milljónir króna en voru 4.639 milljónir króna um sl. áramót.

Veltufjárhlutfall var 1,0 á móti 1,23 í lok síðasta árs. Eiginfjárhlutfall var 40,6% í lok júní.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×