Fótbolti

„Erum ekki komnar á þennan stað til að leika okkur gegn þessum liðum heldur sækja stig“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ásta Eir Árnadóttir á ferðinni í leiknum í kvöld.
Ásta Eir Árnadóttir á ferðinni í leiknum í kvöld. vísir/vilhelm

Frammistaða Breiðabliks gegn Paris Saint-Germain kom fyrirliðanum Ástu Eiri Árnadóttur ekki á óvart. Blikar spiluðu stórvel en urðu að játa sig sigraðar, 0-2, í fyrsta leik sínum í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu.

„Við vorum með upplegg sem við ætluðum að fylgja eftir og mér fannst það ganga mjög vel. Við vorum þéttar fyrir, skipulagðar, töluðum vel saman og gáfum ekki það mörg færi á okkur, sérstaklega ekki í fyrri hálfleik. Á móti fengum við líka færi til að skora. Þetta datt ekki með okkur í dag en heilt yfir erum við ánægðar með frammistöðuna og ég er stolt af liðinu,“ sagði Ásta á blaðamannafundi eftir leikinn í kvöld.

Vorum ekkert að pæla í að þetta væri fimmta besta lið heims

Hún sagði að Blikar gætu gengið hnarreistar frá leiknum og sýnt hversu góðar þær eru.

„Algjörlega. Ég er ánægð með frammistöðuna og hvernig við mættum til leiks. Við vorum ekkert að pæla í að þetta væri fimmta besta lið heims eða eitthvað svoleiðis. Við ætluðum að mæta af fullum krafti og gefa þeim hörkuleik sem við og gerðum,“ sagði Ásta. 

„Maður var smá svekktur að ná ekki skora og jafna. Það hefði gefið okkur helling. En ég er stolt af frammistöðunni og nú vitum við hvað við getum gert í þessari keppni.“

Erum allar sigurvegarar í okkur

Fyrirliðinn ítrekaði að frammistaða liðsins hafi ekki komið sér á óvart.

„Við erum allar sigurvegarar í okkur og viljum vinna leiki, sama á móti hverjum það er. Það kemur mér ekkert á óvart að við séum smá svekktar að ná ekki að skora því við fengum alveg tækifæri. Ég sagði líka fyrir leikinn að við værum ekki komnar á þennan stað bara til að taka þátt og leika okkur gegn þessum liðum, við ætluðum að sækja stig,“ sagði Ásta.

„Mér fannst þetta fín byrjun þótt við höfum ekki fengið stig. En frammistaðan var góð og ég held að við getum flotta hluti í þessari keppni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×