Fótbolti

Berglind og Hallbera mætast í algjörum metleik

Sindri Sverrisson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er framherji Hammarby.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir er framherji Hammarby. vísir/hulda margrét

Áhorfendametið á leik í úrvalsdeild kvenna í fótbolta í Svíþjóð verður stórbætt á sunnudaginn þegar Stokkhólmsliðin Hammarby og AIK mætast.

Í hádeginu í dag höfðu yfir 16.000 miðar selst á leikinn, sem fram fer á Tele2 Arena, og enn eru tveir dagar til stefnu. Áhorfendametið í deildinni er frá árinu 2008 þegar 9.413 manns sáu leik Linköping og Umeå.

Lengi hefur verið grunnt á því góða á milli stuðningsmanna Hammarby og AIK og jafnan verið mikil læti þegar karlalið félaganna hafa mæst.

Hallbera Guðný Gísladóttir lætur finna fyrir sér í landsleiknum gegn Hollandi í síðasta mánuði. Hún er fastamaður í liði AIK.vísir/hulda margrét

Nú er ljóst að fjölmenni verður einnig á leik kvennaliðanna en það verður endanlega ljóst á sunnudag hve margir sjá Berglindi Björg Þorvaldsdóttur með Hammarby og Hallberu Guðnýju Gísladóttur með AIK mætast. Tele2 Arena rúmar 30.000 manns.

Ástæðan fyrir metfjöldanum er þó ekki sú að um sérstakan stórleik sé að ræða í deildinni. Liðin hafa raunar að frekar litlu að keppa nú þegar fjórar umferðir eru eftir. Hammarby er með 25 stig í 5. sæti, sjö stigum frá Evrópusæti, og AIK er í 11. sæti með 16 stig en þó ellefu stigum frá fallsæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×