Fótbolti

Fyrrum mark­vörður Man Utd á leið til Ís­lendinga­liðs Venezia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sergio Romero er á leið til Venezia.
Sergio Romero er á leið til Venezia. Michael Regan/Getty Images

Argentíski markvörðurinn Sergio Romero er að ganga í raðir ítalska félagsins Venezia. Þrír Íslendingar eru á mála hjá félaginu.

Venezia - nýliði í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni - er sem stendur í 17. sæti deildarinnar með fimm stig að loknum sjö leikjum. Liðið hefur fengið á sig 12 mörk í leikjunum sjö og hefur nú leitað á það ráð að fá nýjan markvörð til liðsins.

Unnendur enska boltans þekkja til kappans en hann var varamarkvörður Manchester United um árabil og lengi vel talinn sá besti á þeim vettvangi. Það er einn traustasti varamarkvörður síðari ára.

Ítalski blaðamaðurinn Fabrizio Romano fullyrðir að hinn 34 ára gamli Romero sé á leið til Venezia og samningar verði undirritaðir á morgun, þriðjudag. 

Romero hefur verið án félags síðan samningur hans við Man United rann út í sumar. Hann þekkir vel til ítalska boltans eftir að hafa leikið með Sampdoria frá 2011 til 2015.

Þrátt fyrir að hafa verið varamarkvörður undanfarin ár er Romero einkar reynslumikill eftir að hafa spilað í Argentínu, Hollandi, Ítalíu, Frakklandi og Englandi. Þá var hann lengi vel fastamaður í argentíska landsliðinu en hann á alls að baki 96 landsleiki fyrir þjóð sína.

Til að mynda stóð hann í markinu er Argentína tapaði 1-0 fyrir Þýskalandi í úrslitaleik HM 2014.

Venezia er sannkallað Íslendingalið en Bjarki Steinn Bjarkason og Arnór Sigurðsson eru í leikmannahóp liðsins í dag, sá síðarnefndi er á láni frá CSKA Moskvu. Óttar Magnús Karlsson er einnig á mála hjá félaginu en hann er á láni hjá Siena í Serie C um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×