Innlent

Þuríður Harpa endur­kjörin for­maður Ör­yrkja­banda­lags Ís­lands

Árni Sæberg skrifar
Þuríður Harpa, fyrir miðju, var endurkjörin formaður ÖBÍ á aðalfundi.
Þuríður Harpa, fyrir miðju, var endurkjörin formaður ÖBÍ á aðalfundi. ÖBÍ

Á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands, sem haldinn var í Reykjavík 15. og 16 október, var Þuríður Harpa Sigurðardóttir endurkjörin formaður bandalagsins til tveggja ára. Þá voru tvær ályktanir samþykktar á fundinum.

Í ályktun skorar bandalagið á þingmenn að sýna hugrekki og dug til að rétta hlut fatlaðs fólks. þá segir að stór hluti fatlaðs fólks búi við efnislegan skort, sem opinberaðist þjóðinni í rannsókn Vörðu í haust.

„Fram til þessa hefur skort mjög á pólitískan vilja til að takast á við vandamálið. Lengur verður ekki beðið, staðan er grafalvarleg og algerlega óviðunandi. Það sæmir okkur ekki sem þjóð að sitja lengur með hendur í skauti. Við erum tilbúin, hvað með ykkur?“ segir í ályktuninni.

Þá fer bandalagið jafnframt fram á að ríkið lögfesti tafarlaust samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og valkvæðan viðauka við samninginn.

Samningurinn kveður á um grundvallarmannréttindi fatlaðs fólks í heiminum. Réttindin sem felast í skjalinu hafa þó enn ekki verið tryggð hér á landi enda gerist það ekki fyrr en samningurinn hefur verið lögfestur.

Þangað til á fatlað fólk á Íslandi ekki þau réttindi sem felast í samningnum. Þessu hafa íslenskir dómstólar slegið föstu.

„Íslenska ríkið hefði átt að klára lögfestingu samningsins fyrir mörgum árum síðan. Ef íslenska ríkið hefur raunverulegan vilja til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan rétt og jöfn tækifæri óháð fötlun verður að lögfesta samninginn án frekari tafa,“ segir bandalagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×