Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Svava Rós Guðmundsdóttir og Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoruðu mörk Íslands í leiknum.
Guðrún Arnardóttir fékk tækifæri í byrjunarliðinu og nýtti það einkar vel og var maður leiksins að mati íþróttadeildar Vísis.
Íslensku miðjumennirnir léku vel og framlínan var beitt. Þá átti Sandra Sigurðardóttir mjög góðan leik í íslenska markinu. Í raun var yfir litlu að kvarta enda frammistaða íslenska liðsins skínandi góð og sannfærandi.
Hér að neðan má sjá einkunnir íslensku leikmannanna gegn Tékklandi í kvöld.
Byrjunarliðið:
Sandra Sigurðardóttir, markvörður 8
Örugg í öllum sínum aðgerðum. Þurfti að verja slatta af skotum, þótt þau hafi flest verið viðráðanleg. Varði frá Kamilu Dubcovú í besta færi Tékka undir lok fyrri hálfleiks.
Guðný Árnadóttir, hægri bakvörður 7
Spilaði sem hægri bakvörður annan leikinn í röð. Var betur staðsett en gegn Hollandi og hraði hennar kom í góðar þarfir. Varðist vel. Átti þátt í þriðja markinu og lagði það fjórða upp. Virðist vera orðinn fyrsti kostur í þessa stöðu.
Glódís Perla Viggósdóttir, miðvörður 8
Annar landsleikur, önnur topp frammistaða hjá Glódísi. Varðist vel og skilaði boltanum að venju vel frá sér. Svaf reyndar aðeins á verðinum í færinu sem Dubcová fékk en það kom ekki að sök.
Guðrún Arnardóttir, miðvörður 8
Fékk tækifæri í byrjunarliðinu eftir að hafa spilað vel með Rosengård að undanförnu. Komst virkilega vel frá sínu og hélt tékknesku sóknarmönnunum niðri. Fékk gott færi skömmu áður en Dagný kom Íslandi í 2-0. Gerði frábærlega þegar hún komst fyrir skot Andreu Staškovú skömmu áður en íslenska liðið náði þriggja marka forskoti.
Hallbera Gísladóttir, vinstri bakvörður 6
Oft látið meira að sér kveða í sókninni en lenti ekki í miklum vandræðum í vörninni. Traust frammistaða hjá Skagakonunni.
Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður 8
Skoraði annað mark Íslands með skalla á 59. mínútu. Spilaði aftar en hún venjulega með landsliðinu en leysti það hlutverk með stæl. Lét boltann ganga vel og var öflug í návígum og loftinu.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, miðjumaður 8
Frábær leikur hjá fyrirliðanum. Lagði þriðja mark Íslands upp fyrir Svövu og skoraði það fjórða skömmu seinna. Líkamsstyrkur og dugnaður Gunnhildar Yrsu átti stóran þátt í því að Ísland var með yfirhöndina á miðjunni.
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, miðjumaður 7
Lagði upp fyrsta mark Íslands fyrir Berglindi með góðri fyrirgjöf. Mikil yfirferð á Karólínu sem var líka sterk í loftinu.
Sveindís Jane Jónsdóttir, hægri kantmaður 7
Áræðinn og nýtti hraðann sinn vel eins og gegn Hollandi. Bakverðir tékkneska liðsins réðu ekkert við Sveindísi. Lagði upp gott færi fyrir Berglindi í fyrri hálfleik en getur enn bætt úrslitasendingarnar.
Agla María Albertsdóttir, vinstri kantmaður 6
Fékk aftur tækifæri í byrjunarliðinu. Lét lítið að sér kveða í fyrri hálfleik en lék betur í þeim seinni. Lagði upp annað mark Íslands með frábærri fyrirgjöf.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji 7
Skoraði klassískt framherjamark á 12. mínútu. Tók þá gott hlaup á nærsvæðið, þefaði færið uppi og skilaði boltanum í markið. Átti skot í slá í upphafi seinni hálfleiks. Hélt boltanum vel og kom honum vel frá sér.
Varamenn:
Alexandra Jóhannsdóttir kom inn á fyrir Berglindi Björgu á 75. mínútu
Fínasta innkoma hjá Alexöndru. Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Svava Rós Guðmundsdóttir kom inn á fyrir Karólínu Leu á 75. mínútu
Kom inn af fítonskrafti og skoraði aðeins sex mínútum eftir skiptinguna. Fékk ágætis færi í uppbótartíma en Barbora Votíková varði skot hennar. Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Ingibjörg Sigurðardóttir kom inn á fyrir Dagnýju á 84. mínútu
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Selma Sól Magnúsdóttir kom inn á fyrir Öglu Maríu á 84. mínútu
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Elísa Viðarsdóttir kom inn á fyrir Öglu Maríu á 87. mínútu
Spilaði of lítið til að fá einkunn.