Fótbolti

Ömur­legt gengi Juventus heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Giovanni Simeone fagnar fyrra marki sínu í kvöld.
Giovanni Simeone fagnar fyrra marki sínu í kvöld. Andrea Bruno Diodato/Getty Images

Hellas Verona vann 2-1 sigur á Juventus í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í fótbolta, nú rétt í þessu. Gengi Juventus hefur ekki verið upp á marga fiska undanfarið og ljóst að titilvonir liðsins eru orðnar litlar sem engar.

Giovanni Simeone – sonur Diego, þjálfara Spánarmeistara Atlético Madríd – hefur verið heitur undanfarið og hélt því áfram í dag. Hann kom heimamönnum í Verona yfir eftir rúmlega tíu mínútna leik og þremur mínútum síðar var staðan orðin 2-0.

Héldu heimamenn forystunni allt til loka fyrri hálfleiks og munurinn því enn tvö mörk er liðin gengu til búningsherbergja. Í þeim síðari gerðu Juventus hvað þeir gátu og á endanum minnkaði bandaríski miðjumaðurinn Weston McKennie muninn þegar tíu mínútur lifðu leiks.

Staðan orðin 2-1 og reyndust það lokatölur leiksins. Var þetta annað tap Juventus í röð í deildinni og raunar hefur liðið ekki unnið í síðustu þremur. Ljóst er að sæti Massimiliano Allegri, þjálfara liðsins, er orðið verulega heitt.

Með sigrinum fer Verona upp fyrir Juventus í töflunni á markatölu. Eftir 11 leiki eru bæði lið með 15 stig. Napoli og AC Milan eru á toppi deildarinnar með 28 stig eftir 10 leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×