Samkvæmt ákvörðun framkvæmdastjórnar UEFA fá félög að lágmarki 10.000 evrur, sem í dag jafngildir um 1,5 milljón króna, fyrir hvern fulltrúa sinn á EM.
Ekki skiptir máli hvort leikmaður spili á mótinu eða sé varamaður. Nóg er að hann sé í 23 manna landsliðshópi sem fer á EM.
Heildarupphæðin sem UEFA útdeilir til félaga er 4,5 milljónir evra eða um 675 milljónir króna. Félög fá greiddar 500 evrur fyrir hvern dag sem þeirra leikmaður er með sínu landsliði á EM, og fyrir hvern dag undirbúnings fyrir EM (að hámarki 10 dagar fara í undirbúning).
Í síðasta landsliðshópi Íslands átti Breiðablik fimm fulltrúa og Valur tvo. Færi sami hópur á EM myndi það því að lágmarki skila Breiðabliki 7,5 milljónum og Val 3 milljónum.

Ef að Ísland kæmist svo upp úr sínum riðli, og framlengdi þannig dvöl sína á EM, myndi það skila hærri upphæð fyrir félögin (að lágmarki 1,5 milljón króna fyrir Breiðablik).
Íslensk félög fengju auðvitað einnig bætur vegna erlendra leikmanna sem færu á EM. Til að mynda ef að Chloe Van de Velde yrði enn á mála hjá Breiðabliki og kæmist í landsliðshóp Belga næsta sumar.
Aðeins evrópsk félög fá bætur vegna leikmanna á EM. Félögin munu fá greiðslurnar í október eða nóvember á næsta ári.
Ísland spilar í D-riðli á EM og mætir þar Belgíu 10. júlí, Ítalíu 14. júlí og Frakklandi 18. júlí.