Eins og Fréttablaðið greindi frá í morgun fá bæði yfirstjórn Menntamálastofnunar og forstjóri hennar, Arnór Guðmundsson, falleinkunn í áhættu mati sem gert var af mannauðsfyrirtækinu Auðnast fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Í bráðabirgðaniðurstöðum matsins segir að sjö af ellefu áhættuþáttum þess séu rauðir, sem táknar óviðunandi áhættu sem nauðsynlegt sé að bregðast við án tafar. Tveir þættir eru síðan metnir gulir, sem táknar viðunandi áhættu en kalla samt á öryggisráðstafanir og eftirlit.
Í tilkynningu ráðuneytisins til fréttastofu í dag segir að það hafi mál sem varða stjórnun Menntastofnunar og líðan og velferð starfsfólks hennar til skoðunar. Þau séu í algjörum forgangi en að áhersla sé lögð á „fagleg vinnubrögð í málinu og þau unnin eftir lögum og reglum sem gilda“.
Þar er til dæmis vísað í lög um opinbera starfsmenn en þar sem forstjóri Menntastofnunar er skipaður embættismaður ríkisins getur ráðherra til dæmis ekki sagt honum upp en getur þó flutt hann úr einu embætti í annað samkvæmt 36. grein laganna. Hann verður þó að veita samþykki sitt fyrir slíkri tilfærslu.
Arnór var endurskipaður í embættið í fyrra og þá skipaður til fimm ára. Hann ætti því að gegna starfinu til ársins 2025.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, ætlar ekki að tjá sig um málið á meðan það er í vinnslu innan ráðuneytisins. „Enda er það undir ráðherra komið að taka ákvarðanir þegar mál hafa verið skoðuð ítarlega,“ segir í tilkynningunni.