Réttarhöld yfir Maxwell, fyrrverandi kærustu og aðstoðarkonu Epstein til fjölda ára, hófust í gær. Hún er sökuð um aðild að mansali Epstein á fjórum konum sem voru ungar að árum þegar brotin áttu sér stað. Epstein svipti sig lífi í fangelsi árið 2019. Saksóknarar saka Maxwell um að hafa tælt stúlkur til fylgilags við Epstein og að hann hafi svo misnotað þær.
Fyrsti ásakandi Epstein og Maxwell bar vitni í dag en hún er nú á fimmtugsaldri. Bar hún að Epstein og Maxwell hefðu nálgast sig og vinkonur sínar þegar þær gæddu sér á ís í sumarbúðum í Michigan árið 1994.
Maxwell hafi í framhaldinu haldið sambandi við hana og meðal annars boðið henni í sundlaug Epstein. Hann hafi síðan misnotað hana kynferðislega á heimili sínu á Pálmaströnd á Flórída þegar hún var fjórtán ára gömul. Epstein hafi meðal annars fróað sér yfir hana sem hafi vakið viðbjóð hjá henni, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.
Þá hélt hún því fram að bæði Epstein og Maxwell hafi farið með hana að nuddbekk í húsinu til að sýna henni hvernig hann vildi láta nudda sig. Hann hafi brotið kynferðislega á henni á meðan á nuddinu stóð og fullyrti hún að Maxwell hefði stundum snert brjóst sín.
Maxwell neitar sök í málinu. Málsvörn hennar byggir á því að konurnar sem saka hana um aðild að brotum Epstein muni illa eftir atburðum og að þær séu aðeins á höttunum eftir peningum úr sjóði sem var komið á fót eftir að Epstein framdi sjálfsvíg.