Heimamenn frá París byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt fjögurra marka forskoti. Mestur varð munurinn sex mörk í fyrri hálfleik þegar heimamenn komust í 13-7, en þá skoruðu gestirnir fimm í röð og minnkuðu muninn í eitt. Þegar flautað var til hálfleiks var staðan 16-14, PSG í vil.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í seinni hálfleik, en heimamenn voru þó alltaf skrefi á undan. Parísarliðið bætti jafnt og þétt ofan á forystu sína og vann að lokum góðan fimm marka sigur, 32-27.
Eins og áður segir skoruðu Haukur Þrastarson og Sigvaldi Björn Guðjónsson sitt markið hvor fyrir Kielce, en liðið er enn á toppi B-riðils með 14 stig eftir níu leiki, þrem stigum fyrir ofan PSG sem situr í þriðja sæti.