Sport

Mikil bæting og brons hjá blandaða liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Blandað lið Íslands með bronsmedalíur um hálsinn.
Blandað lið Íslands með bronsmedalíur um hálsinn. stefán þór friðriksson

Blandað lið Íslands í unglingaflokki fékk bronsverðlaun á Evrópumótinu í hópfimleikum í Portúgal í kvöld.

Bretar urðu hlutskarpastir með 52.425 í heildareinkunn. Þar á eftir komu Svíar með heildareinkunn upp á 50.050. Ísland fékk 49.450 í einkunn og var því hársbreidd frá silfrinu.

Íslenska liðið varð einnig í 3. sæti í undankeppninni í fyrradag en heildareinkunnin var mun hærri í dag en á miðvikudaginn. Þá fékk Ísland 47.475 í einkunn.

Tignarleikinn uppmálaður.stefán pálsson

Í 1. umferð keppti Ísland á dýnu og fyrir stökkin sín þar fékk liðið 16.250 í einkunn, mun hærri en í undanúrslitunum (14.850).

Annað áhald íslenska liðsins var trampólín. Æfingarnar þar skiluðu 15.900 í einkunn sem var nokkuð lægri en í undanúrslitunum (16.300).

Íslenska liðið í dansinum.stefán þór friðriksson

Í lokaumferðinni var komið að dansinum. Fyrir hann fékk íslenska liðið 17.300 í einkunn sem skilaði því tímabundið upp í 2. sætið. 

Svíar tóku það hins vegar þegar einkunn þess fyrir stökkin komu í hús. Þriðja sætið og brons var því niðurstaðan hjá blönduðu liði Íslands.

Sænska, breska og íslenska liðið á verðlaunapallinum.stefán þór friðriksson

Evrópumótinu í hópfimleikum lýkur á morgun þegar úrslitin í fullorðinsflokki fara fram.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×