Fótbolti

Þurfi að takast á við þetta sem í­þrótta­hreyfing og sam­fé­lag

Eiður Þór Árnason skrifar
Vanda Sigurgeirsdóttir á aukaþingi KSÍ. 
Vanda Sigurgeirsdóttir á aukaþingi KSÍ.  Vísir/Hulda Margrét

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, fagnar nýrri skýrslu Úttektarnefndar ÍSÍ, sem var falið að fjalla um frammistöðu KSÍ í málum tengdum kynferðisofbeldi. Ábendingar í henni muni nýtast stjórn KSÍ mjög vel í þeirri vinnu sem framundan er.

Úttektarnefndin skilaði sinni skýrslu í dag. Þar segir meðal annars að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að innan KSÍ hafi verið vitneskja um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir tengdir sambandinu hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi. Þá er því beint til stjórnar knattspyrnusambandsins að útbúinn verði sérstakur farvegur fyrir tilkynningar er varða kynferðisbrot.

„Við vitum það að við þurfum að laga verklagið, ekki bara hjá KSÍ heldur hjá íþróttahreyfingunni í heild sinni, og sú vinna er farin af stað. Það er starfshópur að störfum á vegum ÍSÍ sem mun á nýju ári skila tillögum sem eiga að verða að reglugerð í mars á næsta ári. 

Það er alveg ljóst að þetta er eitthvað sem við verðum að bæta og við erum ekkert að reyna að fela það heldur munum við laga þetta og erum lögð af stað,“ sagði Vanda í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

Ofbeldi ekki liðið

Vanda bætti við henni hafi ekki enn gefist tækifæri til að lesa hina 107 blaðsíðna skýrslu spjaldanna á milli en nú þurfi stjórn KSÍ að fá skýrsluna í hendur og leggjast yfir niðurstöðurnar. Þar að auki hafi annar starfshópur á vegum KSÍ skilað af sér skýrslu um sömu málefni fyrir nokkrum vikum.

„Öll þessi gögn sem við erum að fá frá fagfólki munum við nota til þess að gera góða hreyfingu enn betri og til að koma þessum málum í lag, af því að það er eitthvað sem verður að vera í lagi.

Ofbeldi er ekki liðið, það verður að vera örugg leið fyrir fólk og við þurfum að takast á við þetta sem knattspyrnuhreyfing, sem íþróttahreyfing og sem samfélag,“ segir Vanda.

Leggja til að kostir og gallar kynjakvóta verði kannaðir

Í skýrslu Úttektarnefndar ÍSÍ er meðal annars talað fyrir því að stjórnendur KSÍ reyni að fjölga konum innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Er til að mynda minnst á kynjakvóta í því samhengi.

„Ég er náttúrlega jafnréttiskona en mér finnst mjög mikilvægt að tala um að það kemur líka fram í skýrslunni að KSÍ hafi beitt sér með virkum hætti fyrir því að jafna aðbúnað karla og kvenna með alls konar aðferðum,“ segir Vanda.

„Það er margt vel gert. Þau segja það í skýrslunni að það er ekki hægt að draga neina ályktun um að það sé einhvers konar aðstæður innan KSÍ sem hamli þátttöku kvenna, en aftur á móti er komið með hugmyndir um það hvað megi gera betur og þar á meðal þetta með að jafna hlut kvenna í stjórnum og nefndum og það er eitthvað sem við munum skoða eins og öll önnur góð ráð.“

Hlusta má á viðtalið við Vöndu í síðari hluta innslagsins. 

Tengd skjöl


Tengdar fréttir

Segir úttektina á KSÍ vera gaslýsing á þolendur

Þórhildur Gyða Arnarsdóttir segir að skýrsla úttektarnefndar vegna viðbragða KSÍ við kynferðisbrotamálum sé opinber gaslýsing á þolendur. Hanna Björg Vilhjálmsdóttir kynjafræðikennar segir skýrsluna hafa verið „pínu svekk“.

Dómari og starfsmaður yngra landsliðs sagðir gerendur í tveimur málanna

Tvö kynferðisbrotamálanna sem óháð úttektarnefnd ÍSÍ segir að stjórn KSÍ hafi fengið vitneskju um frá árinu 2010 tengjast annars vegar dómara og hins vegar starfsmanni yngra landsliðs. Hvorugur hefur starfað frekar fyrir KSÍ eftir að sambandinu var tilkynnt um mál þeirra.

KSÍ vissi af fjórum málum | Guðni fékk tilkynningu frá starfsmanni KSÍ um kynferðisofbeldi

Úttektarnefnd ÍSÍ, sem var falið að fjalla um frammistöðu KSÍ í málum tengdum kynferðisofbeldi, skilaði sinni skýrslu í dag. Þar segir meðal annars að nefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að innan KSÍ hafi verið vitneskja um alls fjórar frásagnir um að leikmenn eða aðrir tengdir sambandinu hafi beitt kynbundnu eða kynferðislegu ofbeldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×