Innlent

Lögregla kölluð til vegna þriggja líkamsárása í gærkvöldi og nótt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lögregla átti nokkuð annasamt kvöld og nótt.
Lögregla átti nokkuð annasamt kvöld og nótt. Vísir/Vilhelm

Lögregla sinnti þremur tilkynningum vegna líkamsárása í gærkvöldi og nótt. Ein átti sér stað á hóteli í miðborg Reykjavíkur fyrir miðnætti en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi þegar lögregla mætti á staðinn.

Um klukkan 2 var óskað eftir aðstoð lögreglu vegna líkamsárásar í Hafnarfirði en þar var árásarmaðurinn einnig á bak og burt þegar lögreglu bar að garði. Í póstnúmerinu 112 voru hins vegar tveir handteknir vegna líkamsárásar rétt fyrir klukkan 3 og vistaðir í fangageymslu.

Nokkrir árekstrar komu einnig inn á borð lögreglu í gærkvöldi en um klukkan 19 var tilkynnt um árekstur tveggja bíla í Skeifunni. Þá var tilkynnt um umferðarslys í Vesturbæ en þar ók ökumaður bifreið inn í garð. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.

Lögreglu barst einnig tilkynning um árekstur tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi, við Bláfjallaveg. Reyndust báðir bílarnir óökufærir og voru fjarlægðir af vettvangi með dráttarbifreið. Ekkert kemur fram í tilkynningu lögreglu um slys á fólki.

Ýmis önnur mál komu inn á borð lögreglu, sem var meðal annars kölluð til vegna þjófnaða á farsímum í íþróttahúsi og óláta við leigubílaröð í miðborginni.

Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×