Vísir greindi frá því á mánudag að nokkrir nemendur og kennarar hefðu verið sendir í sóttkví eftir að smit greindist innan skólans fyrir síðustu helgi en á mánudag höfðu fimmtán greinst.
Að sögn Arnheiðar eru langflest smitin, bæði meðal nemenda og kennara, bundin við 5. bekk.
Hún segir ekki bara um að ræða eitt hópsmit, heldur sé einnig um að ræða fleiri utanaðkomandi smit. Þá segist hún hafa heyrt af einu tilviki þar sem fjölskyldumeðlimur hafi smitast en hún hafi ekki fengið þetta tilvik staðfest.
„Það er ekki búið að taka endanlega ákvörðun um eitt né neitt. Það er bara verið að fara yfir stöðuna með almannavörnum og skóla- og frístundasviði,“ segir hún um framhaldið, spurð að því hvort til standi að fella niður skólastarf.
Klettaskóli er sérskóli og öðruvísi en aðrir skólar að ýmsu leiti. Nemendur hans eru til að mynda um 124 talsins en starfsmenn 160. Þeir starfa í ýmsum starfshlutföllum og um er að ræða kennara, auk ýmissa sérfræðinga og þjálfara.
„Það eina jákvæða í þessu, ef það má orða það þannig, er að við höfum ekki fengið fregnir af neinum sem hefur orðið alvarlega veikur. Hvorki nemendur né starfsfólk,“ segir Arnheiður.
Þá hafi allir staðið sig vel í því ástandi sem upp er komið.
„Krakkarnir og starfsfólkið hefur staðið sig alveg ótrúlega vel í svakalega krefjandi aðstæðum og foreldrar verið sérstaklega samvinnufúsir. Það hafa allir lagst á eitt við að vinna þetta saman og við erum ótrúlega þakklát fyrir það.“