Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að eftir hádegi snúist í sunnan og suðvestan tíu til átján metrum á sekúndu og dragi úr vætu.
„Það verður milt í veðri, hiti yfirleitt á bilinu 4 til 10 stig, hlýjast í hnjúkaþey norðan- og austanlands.
Minnkandi suðlæg átt á morgun, víða gola eða kaldi eftir hádegi. Súld eða dálítil rigning með köflum sunnantil á landinu, en það verður þurrt að kalla á norðanverðu landinu fram á kvöld. Kólnar heldur.“

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á föstudag: Minnkandi suðlæg átt, víða 5-10 m/s eftir hádegi. Rigning eða súld með köflum, en þurrt að kalla á N-verðu landinu fram undir kvöld. Hiti 2 til 8 stig.
Á laugardag: Suðaustlæg eða breytileg átt 3-10 og dálítil rigning eða súld með köflum, en styttir upp N- og A-lands eftir hádegi. Hiti 0 til 8 stig, mildast S-til.
Á sunnudag: Suðaustan og sunnan 5-13 og súld eða dálítil rigning, en þurrt á N- og A-landi. Hiti breytist lítið.
Á mánudag: Hæg breytileg átt og dálítil væta á víð og dreif. Hiti 1 til 6 stig, en heldur svalara inn til landsins.
Á þriðjudag (vetrarsólstöður) og miðvikudag: Austan- og norðaustanátt og dálítil él SA- og A-lands, en þurrt um landið V-vert. Kólnandi veður.