Alma er móðir drengs með ADHD og skyldar raskanir. Hún fór á síðasta ári í mál við Íslenska ríkið vegna þjónustu við börn með sérþarfir innan skólakerfisins hér á landi. Öryrkjabandalagið styður málsóknina, sem er svokallað prófmál.
„Það er verið að krefjast þess í nokkrum málum, það voru tekin sérstaklega fjögur mál, þar sem að farið er fram á að börn í þeim málum fái þá þjónustu í skólanum sem var ekki verið að veit sem á samkvæmt lögum að veita.“
Eina lausnin að flytja
Eitt af þessum málum varðar son Ölmu og segir hún að nú sé verið að undirbúa að fara með málið af stað fyrir dómstólum.
„Það sem að gerist í millitíðinni er að við flytjum úr sveitarfélaginu, við hreinlega flýjum Hafnarfjörð út af barninu okkar. Við erum búin að búa þarna í þrettán ár.“
Alma segir að barninu og foreldrunum hafi einfaldlega ekki liðið vel í bæjarfélaginu.
„Þetta var eina lausnin sem við sáum í stöðunni. Að selja æskuheimili barnanna okkar og fara.
Aðferðirnar mannréttindabrot
Hún ræðir í viðtalinu um gulu herbergin sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum síðustu mánuði og aðferðirnar sem notaðar eru í Brúarskóla.
„Vandamálið er að þessar aðferðir sem er verið að nota þær brjóta á þessum börnum. Þetta eru ólöglegar aðferðir. Þú mátt ekki þvinga aðra manneskju á þennan hátt eins og er gert samkvæmt þessu verklagi.“
Alma segir að starfsfólk skólanna þurfi einfaldlega betri tól til að vinna með þessum börnum. Að hennar mati er skammarlegt að það þurfi alltaf að fara í málaferli til að ná fram réttindum sem eru nú þegar löggild.
Þátturinn kom út á Vísi í dag og er hægt að horfa á hann í spilaranum hér fyrir neðan.