Erlent

Sérfræðingar WHO kalla eftir bóluefnum sem veita betri vörn gegn smiti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
WHO segir 331 bóluefni gegn kórónuveirunni í þróun.
WHO segir 331 bóluefni gegn kórónuveirunni í þróun. epa

Sérfræðingar Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar segja ómögulegt að reiða sig á sífelldar örvunarbólusetningar til að takast á við ný afbrigði kórónuveirunnar. Kalla þeir eftir nýjum bóluefnum sem veita betri vernd gegn smiti.

Um er að ræða hóp sérfræðinga sem hefur unnið að því að meta virkni bóluefnanna sem nú eru notuð til að vernda gegn Covid-19 en þeir segja mikilvægt að þróa bóluefni sem vernda ekki bara gegn alvarlegum veikindum heldur einnig gegn smiti.

Vörn gegn smiti myndi draga úr útbreiðslu kórónuveirunnar í samfélaginu og draga úr þörfinni á ströngum sóttvarnaaðgerðum til að vernda heilsu og líf fólks. Þá segja sérfræðingarnir að bóluefnaframleiðendur ættu að miða að því að þróa efni sem veita breiðvirka, sterka og langvarandi vörn, sem myndi gera endurteknar örvunarbólusetningar óþarfar.

Þangað til gæti þurft að „uppfæra“ þau bóluefni sem nú þegar eru í notkun, líkt og Pfizer hefur gert til að bregðast við ómíkron.

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni er nú unnið að þróun 331 bóluefnis gegn kórónuveirunni. Stofnunin hefur hingað til aðeins lagt blessun sína yfir átta.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×