Fótbolti

Davíð Kristján í sænsku úrvalsdeildina

Sindri Sverrisson skrifar
Davíð Kristján Ólafsson hefur síðustu þrjú ár spilað með Álasundi í Noregi.
Davíð Kristján Ólafsson hefur síðustu þrjú ár spilað með Álasundi í Noregi. Mynd/Heimasíða Álasund

Davíð Kristján Ólafsson, sem er í íslenska landsliðshópnum sem spilar í Tyrklandi í dag, hefur verið kynntur sem nýr leikmaður sænska knattspyrnufélagsins Kalmar.

Davíð Kristján, sem er 26 ára gamall bakvörður, kemur til Kalmar frá Aalesund í Noregi. Þar hefur hann leikið þrjú síðustu ár, þar af eitt ár í norsku úrvalsdeildinni. Áður var Davíð hjá Breiðabliki.

Davíð skrifaði undir samning til næstu þriggja ára við Kalmar, sem endaði í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð.

Davíð var kallaður inn í íslenska landsliðshópinn sem mætir Úganda í Tyrklandi í dag, og Suður-Kóreu á laugardaginn, vegna meiðsla Guðmundar Þórarinssonar. Hann á að baki tvo A-landsleiki.

„Það er mjög gott að allt sé klappað og klárt og ég hlakka til að byrja og hitta nýju liðsfélagana mína. Kalmar sýndi snemma áhuga þegar ég skoðaði mína valkosti og endaði hátt á mínum lista,“ sagði Davíð við heimasíðu Kalmar.

„Ég fíla hvernig liðið nálgast sína leiki með sóknarsinnuðum hætti. Ég lít á sjálfan mig sem sóknarsinnaðan bakvörð með góðan vinstri fót og tel að hæfileikar mínir henti vel í leikstíl Kalmar. Vonandi getum við haldið áfram að byggja ofan á það sem liðið gerði í fyrra og gert eitthvað gott saman,“ sagði Davíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×