Handbolti

Tveir Íslendingar í úrvalsliði riðlakeppninnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur spilað einstaklega vel á EM.
Gísli Þorgeir Kristjánsson hefur spilað einstaklega vel á EM. getty/Kolektiff Images

Lars Christiansen, markahæsti leikmaður danska landsliðsins frá upphafi, valdi tvo Íslendinga í úrvalslið riðlakeppninnar á Evrópumótinu í handbolta.

Eftir riðlakeppnina fékk EHF nokkra handboltasérfræðinga til að velja úrvalslið hennar. Þeirra á meðal var Christiansen. Hann var greinilega hrifinn af spilamennsku Íslands því hann valdi tvo Íslendinga í úrvalsliðið sitt, þá Sigvalda Guðjónsson og Gísla Þorgeir Kristjánsson.

Alls komu fjórir af sjö í úrvalsliði Christiansen úr riðli Íslands. Hann valdi einnig Hollendinginn Kay Smits, markahæsta leikmann EM, og portúgalska línumanninn Victor Iturizza.

Frakkinn Xavier Houlet var einnig með Gísla í úrvalsliði sínu en Dominik Klein, fyrrverandi leikmaður þýska landsliðsins, valdi engan Íslending í sitt úrvalslið.

Þess má geta að Oliver Preben Jørgensen, fréttamaður TV3 í Danmörku, valdi Gísla og Sigvalda í sitt úrvalslið og Sigvaldi var í úrvalsliði handboltamannsins Rasmus Boysen sem heldur úti Twitter-síðunni Handball Transfers.

Ísland hefur leik í milliriðli gegn heimsmeisturum Danmerkur í kvöld. Leikurinn hefst klukkan 19:30. Slæmar fréttir bárust úr herbúðum Íslendinga í gær því þrír leikmenn, Björgvin Páll Gústavsson, Elvar Örn Jónsson og Ólafur Guðmundsson, eru komnir í einangrun eftir að hafa greint með kórónuveiruna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×