Björgvin Páll er einn sex leikmanna Íslands sem greindust með kórónuveiruna í aðdraganda leiksins gegn Danmörku. Hinir eru Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson, Ólafur Guðmundsson, Elvar Örn Jónsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson. Þrátt fyrir áföllin stóðu Íslendingar í heimsmeisturunum sem unnu á endanum fjögurra marka sigur, 28-24.
Í dag fékk Jón Birgir Guðmundsson, sjúkraþjálfari íslenska liðsins, svo jákvæða niðurstöðu úr hraðprófi og er kominn í einangrun.
Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari og Bjarki Már hafa gagnrýnt sóttvarnir á hótelinu sem íslenska liðið dvelur á en þær virðast ekki í hávegum hafðar. „Mér finnst bara að við höfum lent í aðstæðum á þessu hóteli sem eru mjög illviðráðanlegar. Það var ekki búbbla, og það vissi EHF að yrði ekki og var bara samþykkt. Þar með erum við útsettir, þó að við reynum að passa okkur,“ sagði Guðmundur í samtali við Vísi eftir leikinn gegn Dönum.
Og Björgvin lætur mótshaldara heyra það úr einangruninni. Hann segir að frammistaða Ungverja, innan vallar sem utan, sé líklega sú slakasta hjá heimaþjóð á stórmóti.
„Þetta EM er til skammar. Hlýtur að vera slakasta frammistaða heimaþjóðar á stórmóti frá upphafi, innan vallar sem utan,“ skrifaði Björgvin.
Markvörðurinn sagði þó jákvætt að Íslendingar hafi komið í veg fyrir að Ungverjar kæmust í milliriðil. Ísland vann leik liðanna í lokaumferð riðlakeppninnar, 31-30.
„Flott að hafa allavega náð að henda þeim út úr mótinu... Hafa leikið okkur grátt í boltanum síðustu ár. Jæja áfram gakk! Næsti leikur, næsta stríð og allt það!“ skrifaði Björgvin.
Þetta EM er til skammar. Hlýtur að vera slakasta frammistaða heimaþjóðar á stórmóti frá upphafi, innan vallar sem utan. Flott að hafa allavega náð að henda þeim út úr mótinu... Hafa leikið okkur grátt í boltanum síðustu ár. Jæja áfram gakk! Næsti leikur, næsta stríð og allt það!
— Björgvin Páll Gústavsson (@BjoggiGustavs) January 21, 2022
Veiran hefur leikið fleiri lið en Ísland illa, ekki síst Þýskaland. Hvorki fleiri né færri en tólf leikmenn þýska liðsins hafa greinst með veiruna og Alfreð Gíslason, þjálfari þess, hefur varla haft undan við að kalla á nýja leikmenn til að fylla skörð þeirra smituðu.
Næsti leikur Íslands á EM er gegn Ólympíumeisturum Frakklands klukkan 17:00 á morgun.