Rétt fyrir hádegi í gær gekk maður inn á pósthús í Carlowsýslu á Írlandi og bað starfsmann um að afhenda sér ellilífeyrisgreiðslu annars manns. Hann hafði ekki erindi sem erfiði og yfirgaf þá pósthúsið.
Skömmu seinna sneri hann aftur í fylgd tveggja annarra. Sjónarvottar hafa lýst því fyrir The Irish Independent að svo hafi virst sem tveir menn hafi haldið þeim þriðja uppi á milli sín.
Þá segir að starfsmann pósthússins hafi farið að gruna að eitthvað undarlegt væri á seyði og því neitað að afhenda umbeðinn lífeyri. Heimildarmaður The Irish Independent segir mennina tvo þá hafa haldið því fram að maðurinn væri hugsanlega að fá hjartaáfall.
Niðurstaða krufningar hefur hins vegar leitt í ljós að maðurinn hafi verið látinn í allt að þrjár klukkustundir áður en hann var dreginn inn á pósthúsið. Þó er ekki talið að andlát hans hafi borið að með saknæmum hætti.