Þetta segir í yfirlýsingu Rótarinnar um mál Einars, sem hún birti nú fyrir stuttu. Einar sagði af sér sem formaður SÁÁ í gær eftir að Stundin greindi frá því að hann hafi keypt vændi af skjólstæðingi SÁÁ. Einar sagði í yfirlýsingu í gær að hann hafi svarað auglýsingu konunnar á samfélagsmiðlum en í ljós kom í dag að hann hafði frumkvæði af samskiptunum um kaup á vændi.
Rótin segir að í hópi þeirra sem nýti sér þjónustu SÁÁ, sem stjórnvöld hafi í rúm 40 ár treyst til að sjá um meginþorra heilbrigðisþjónustu fyrir fólk með vímuefnavanda, sé margt af jaðarsettasta fólki landsins og í ljósi þess valds sem stjórnvöld hafi fært SÁÁ í málaflokknum sé um fádæma siðleysi að ræða.
Málið hafi sannarlega haft áhrif á störf Einars sem formanns, þrátt fyrir yfirlýsingu hans um hið gagnstæða að mati Rótarinnar. „Í fáum störfum hefur siðferðiskennd meira gildi en í störfum fyrir fólk með vímuefnavanda og jaðarsett fólk.“
„Þó að það sé ekki hlutverk stjórnvalda að skipta sér af stjórnun frjálsra félagasamtaka hljótum við að gera þær kröfur að hjá þeim aðilum sem veita heilbrigðisþjónustu fyrir ríki og sveitarfélög ríki hvorki ógnarstjórn né annað ofbeldi og að faglegir ferlar séu til staðar til að taka á slíkum málum,“ segir í yfirlýsingu Rótarinnar.
„Árið 2017 spurði Rótin stjórnendur SÁÁ um verkferla samtakanna varðandi kynferðislega áreitni og ofbeldi og var því svarað að þeirra væri ekki þörf. Það eru mikil vonbrigði að Embætti landlæknis hafi haft vitneskju um brotið í tvö ár án þess að aðhafast.“
Fram kom í frétt Stundarinnar um málið í morgun að Embætti landlæknis hafi borist tilkynning um málið árið 2020, þegar Einar var í framboði til formanns. Embætti landlæknis sagði þó í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu fyrr í dag að því hafi ekki borist tilkynning um málið, hvorki formlega né óformlega.
Rótin segir að félagið hafi verið stofnað fyrir tæpum níu árum til að vinna að málum kvenna með vímuefnavanda en áður hafi stofnendur félagsins unnið að úrbótum í stefnu og meðferð kvenna innan SÁÁ, en að mati Rótarinnar hafi þá fljótlega komið í ljós að lítill áhugi væri á þeirri áfalla- og kynjamiðuðu nálgun sem nauðsynleg sé í meðferðarstarfi.
„Rótin var stofnuð til að vinna þessum málum framgang en SÁÁ tekið illa í hugmyndir félagsins, gert lítið úr þeim og beitt þöggunartilburðum.“
Segir í yfirlýsingu Rótarinar að MeToo byltingin snúist um að breyta samfélaginu til hins betra, að hafna kerfum sem byggist á misnotkun valds.
„Sá hörmulegi atburður að formaður samtaka, sem stjórnvöld hafa gefið vald yfir fólki með vímuefnavanda, er ekki óheppileg tilviljun heldur hlekkur í langri keðju. Þessi keðja rofnar ekki nema farið sé í markvissar aðgerðir til að uppræta ofbeldismenninguna. “