Handbolti

Þrír lausir úr einangrun og Ísland stóreflist

Sindri Sverrisson skrifar
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson hefur misst af síðustu þremur leikjum Íslands vegna einangrunar en er klár í slaginn.
Fyrirliðinn Aron Pálmarsson hefur misst af síðustu þremur leikjum Íslands vegna einangrunar en er klár í slaginn. Getty

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur endurheimt öfluga leikmenn úr einangrun eftir kórónuveirusmit, á síðustu stundu fyrir leikinn mikilvæga við Svartfjallaland á eftir.

Þrír leikmenn eru nú lausir úr einangrun; fyrirliðinn Aron Pálmarsson, Bjarki Már Elísson og Elvar Örn Jónsson.

Allir þrír verða því í leikmannahópnum gegn Svartfjallalandi en leikurinn hefst klukkan 14.30. Sigur gæfi Íslandi von um sæti í undanúrslitum á EM.

Björgvin Páll Gústavsson, sem spilaði gegn Króatíu á mánudaginn en var svo skikkaður öðru sinni í einangrun í gær, verður hins vegar ekki með.

Elvar var einn af þremur sem greindust fyrstir Íslendinga með smit á EM, á miðvikudaginn í síðustu viku, ásamt Björgvini og Ólafi Guðmundssyni. Ólafur þarf hins vegar enn að bíða.

Átta leikmenn enn í einangrun

Á fimmtudaginn í síðustu viku var greint frá því að Aron, Bjarki og Gísli Þorgeir Kristjánsson hefðu smitast af veirunni, og alls hafa ellefu leikmenn Íslands greinst með kórónuveiruna síðustu vikuna. 

Þeir sem eru utan hóps í einangrun í dag eru Björgvin, Ólafur, Gísli Þorgeir, Elliði Snær Viðarsson, Arnar Freyr Arnarsson, Janus Daði Smárason, Daníel Þór Ingason og Vignir Stefánsson. Þá greindist sjúkraþjálfarinn Jón Birgir Guðmundsson einnig með veiruna.

Sex leikmenn kallaðir út frá því að hópsmitið kom upp

Tveir leikmenn eru mættir til Búdapest og hafa bæst í hópinn eftir leikinn við Króatíu, þeir Dagur Gautason úr Stjörnunni og Bjarni Ófeigur Valdimarsson úr Skövde í Svíþjóð.

Alls hafa því sex leikmenn verið kallaðir út til Búdapest eftir að EM hófst, því áður höfðu Valsararnir Vignir, sem smitaðist svo, og Magnús Óli Magnússon, og Haukamennirnir Darri Aronsson og Þráinn Orri Jónsson, verið kallaðir út.


Tengdar fréttir

Dagur og Bjarni á leið til Búdapest

Dagur Gautason, leikmaður Stjörnunnar, hefur verið kallaður til móts við íslenska landsliðið í handbolta, ásamt Bjarna Ófeigi Valdimarssyni, leikmanns Skövde í Svíþjóð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×