Innlent

Hunda­hósti or­sakast lík­lega af kórónu­veiru

Árni Sæberg skrifar
Kórónuveirur herja einnig á hunda hér á landi.
Kórónuveirur herja einnig á hunda hér á landi. Liukov/Getty

Undanfarið hefur dularfullur hósti herjað á hunda á höfuðborgarsvæðinu. Matvælastofnun hafa nú borist vísbendingar um að hóstinn orsakist af hundakórónuveiru.

Í frétt MAST um málið segir að hundakórónuveiran CRCoV tengist SARS-CoV-2, sem veldur Covid-19, ekki. Þá sé ekkert sem bendir að veiran berist frá hundum til annarra dýra eða manna.

Rannsóknir Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum og Dýraspítalans í Grafarholti benda til þessa en þar hafa sýni, sem tekin hafa verið úr hundum með öndunarfæraeinkenni, verið greind á undanförnum vikum.

Í PCR-sýnatökum hafa kórónuveirur greinst í stórum hluta hundanna. Raðgreining verður framkvæmd til staðfestingar.

Þá segir að veiran hafi aldrei áður greinst í hundum hér á landi. Þær hafi greinst fyrst í Bretlandi árið 2003 og séu hluti þeirra veira sem valda svokölluðum hótelhósta hjá hundum.

Einkenni veirunnar séu svipuð og af öðrum veirum sem valda hótelhósta, því sé ekki hægt að greina veiruna út frá einkennum hundanna. Einkenni komi líklega fram á fáeinum dögum frá smiti og séu í flestum tilfellum væg. Þó geti sýking þróast út í lungnabólgu hjá einstaka hundi.

„Ekkert bóluefni er til gegn CRCoV, enn sem komið er. Mikilvægustu aðferðir til að draga úr líkum á smiti er að forðast staði þar sem margir hundar koma saman og halda veikum hundum aðskildum frá öðrum hundum í um þrjár vikur eftir að einkenna verður vart. Rétt er líka að gæta vel allra sóttvarna við umhirðu og umgengni við hundana því smit getur auðveldlega borist með fatnaði og höndum fólks,“ segir í tilkynningu MAST.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×