Innlent

Færðin farin að spillast í efri byggðum borgarinnar

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Færðin er víða orðin erfið í efri byggðum borgarinnar.
Færðin er víða orðin erfið í efri byggðum borgarinnar. Vísir/RAX

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að nokkuð hafi verið um foktjón í veðrinu sem nú gengur yfir. Flest verkefni björgunarsveitanna hafa verið á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum og Suðurlandi.

„En þetta er mest hérna í borginni,“ sagði Davíð í samtali við Bítið á Bylgjunni. 

Hann segir að sveitirnar hafi verið vel undirbúnar og á mörgum stöðum hafi fólk verið klárt í húsi til að bregðast við. 

„Klukkan fjögur, þegar mesta veðrið átti að vera hér á höfuðborgarsvæðinu, vorum við með á þriðja hundrað manns í viðbragðsstöðu.“ 

Davið segir að spár virðist að mestu hafa gengið eftir en versta veðrið átti að vera í borginni á milli klukkan fjögur og sex. 

„Menn eru að tala um vindatölur á höfuðborgarsvæðinu sem sjást ekki oft og víða á suðvesturhorninu er bara rok eða ofsaveður, þannig að þetta passar alveg,“ segir hann. 

Hann segir ástandið þó mjög vel viðráðanlegt. 

„Við erum að sjá einhver sjötíu verkefni sem björgunarsveitir hafa sinnt og þetta er allt vel viðráðanlegt. Vestmanneyjar hafa til dæmis sloppið eiginlega alveg.“ 

Davíð segir tímasetninguna einnig vera lán í óláni því fáir séu á ferðinni. 

„Fyrst þegar veðrið skall á rétt fyrir fjögur fengum við nokkrar tilkynningar um fasta bíla í borginni en svo höfum við ekki séð það. Vonandi verður það áfram þannig því við erum að heyra af því að færðin sé farin að spillast nokkuð í efri byggðum borgarinnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×