FA sendi heilsugæslunni fyrirspurnir vegna málsins 21. janúar síðastliðinn og eftir að hafa engin svör fengið sendi félagið ítrekun 3. febrúar síðastliðinn. Beðið var um að svar bærist fyrir daginn í dag, annars yrði málið kært til kærunefndar útboðsmála.
Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að félaginu hafi engin svör borist frá heilsugæslunni og félagið hyggist því kæra málið.
Fram kemur í frétt Fréttablaðsins að Heilsugæslan telji sig ekki hafa brotið lög vegna neyðarsjónarmiða, sem geti veitt stofnuninni undanþágu frá lögbundnu ferli. Það sem kvörtun FA beinist að sé að þegar fjölmennir viðburðir voru gerðir leyfilegir með hraðprófum í fyrra hafi heilsugæslan sent út boð til fyrirtækja um að taka þátt í rafrænu gagnvirku innkaupaferli vegna hraðprófa.
Í kjölfarið hafi níu fyrirtæki fengið staðfestingu um að þau hafi verið valin til að tkaa þátt í ferlinu en heilsugæslan hafi endað á að velja hraðpróf frá tveimur framleiðendum sem Landspítalinn hafi mælt sérstaklega með. Ríkiskaup hafi svo staðfest að hraðprófin hafi ekki verið keypt í gagnvirku innkaupakerfi.